Hjálp frá Íslandi berst á þurrkasvæði í Sómalíu

14. nóv. 2011

Hjálpargögnum frá Rauða krossi Íslands var dreift í Sómalilandi í gær til um 2.500 flóttamanna, sem búa við hrikalegar aðstæður, sumir án húsaskjóls.  Dreifingin er liður í neyðaraðstoð Rauða krossins og Rauða hálfmánans í Sómalíu, en Rauði kross Íslands hefur nú varið um 50 milljónum króna til hjálparstarfsins. 

Hægt er að styðja áframhaldandi hjálparstarf með því að hringja í söfnunarsíma Rauða krossins 904-1500 og leggja þannig 1.500 krónur fram til aðstoðarinnar

Þórir Guðmundsson, sviðsstjóri hjálparstarfssviðs Rauða kross Íslands, fylgist með dreifingu hjálpargagnanna þessa dagana í Sómalilandi. Sjálfboðaliðar Rauða hálfmánans dreifðu hjálpargögnunum: plastdúkum, eldunaráhöldum, teppum, hreinlætispökkum, brúsum og fötum. Afhending varanna fór afar skipulega fram í brennandi sólinni í hæðum fyrir utan Hargeysa.

„Ég talaði við konu sem sagði að hún og fjölskylda hennar hefðu sofið úti í sjö sólarhringa,“ segir Þórir Guðmundsson. „Þau voru afskaplega fegin að fá stóra plastdúka sem hægt er að breiða yfir sprek sem fólk er vant að hlaða upp sem kofaveggi.“

Hargeysa er höfuðborg Sómalilands, sem hefur lýst yfir sjálfstæði frá Sómalíu en hefur ekki hlotið alþjóðlega viðurkenningu. 

Hundruð manna láta daglega lífið í hungursneyðinni í Sómalíu. Ástandið er verst í sunnanverðu landinu, þar sem langvarandi þurrkar hafa valdið dauða búfjár og eyðilagt uppskeru bænda. Hundruð þúsunda manna eru komnar á vergang, bæði til nágrannalanda og innan Sómalíu.

Auk dreifingar hjálpargagna í norðurhluta landsins keypti Rauði kross Íslands einnig bætiefnaríkt hnetusmjör sem er notað til að hjúkra alvarlega vannærðum börnum til heilbrigðis í sunnanverðu landinu. Sómalskir skjólstæðingar sem njóta góðs af hjálparstarfi Rauða krossins, sem almenningur á Íslandi hefur stutt dyggilega, eru alls um 50.000.

Áfram verður tekið á móti framlögum í síma Rauða krossins, 904-1500 og þá bætast við 1.500 kr. við næsta símreikning. Einnig er hægt að styrkja neyðaraðstoð Rauða krossins í Sómalíu með því að greiða inn á reikning hjálparsjóðs í banka 0342, hb. 26, reikn. 12, kt. 530269-2649.