Skákungmenni heiðruð fyrir Sómalíusöfnun

11. ágú. 2011

Rauði kross Íslands heiðraði í morgun ungmennin sem stóðu fyrir skákhátíðinni „Við erum ein fjölskylda“ um síðustu helgi.  Alls söfnuðu þau einni milljón króna í tveggja daga skákmaraþoni til styrktar Sómalíu, auk þess sem símasöfnun Rauða krossins tók mikinn kipp á sama tíma og þar bættist um ein milljón króna til viðbótar.

Um 20 börn tóku þátt í maraþoninu og stóðu sig með miklum sóma.  Rauði krossinn er þeim ákaflega þakklátur fyrir framtakið og af því tilefni litu fulltrúar hans inn á æfingu hjá Skákakademíunni þar sem hinir öflugu skákkrakkar tóku á mótu viðurkenningarskjölum. Rauði krossinn vill einnig þakka þeim sem tefldu við ungmennin og styrktu þannig málefnið með framlagi sínu. Peningarnir verða notaðir til hjálparstarfs Rauða krossins í Sómalíu þar sem börn svelta heilu hungri.

Upphæðin sem safnaðist dugar til að kaupa bætiefnaríkt hnetusmjör til að hjúkra um 1.300 alvarlega vannærðum börnum til heilbrigðis.  Það voru Skákakademía Reykjavíkur og Skáksamband Íslands sem stóðu fyrir maraþonskákhátíðinni í Ráðhúsi Reykjavíkur. Þar tefldu mörg efnilegustu börn og unglingar landsins við gesti og gangandi. Mótherjar krakkanna borguðu upphæð að eigin vali.

Áfram verður tekið á móti framlögum í síma Rauða krossins, 904-1500, og þá bætast við 1.500 kr. við næsta símreikning.  Einnig er hægt að styrkja neyðaraðstoð Rauða krossins í Sómalíu með því að greiða inn á reikning hjálparsjóðs í banka 0342, hb. 26, reikn. 12, kt. 530269-2649.  Þá munu öll áheit fyrir Rauða krossinn í Reykjavíkurmaraþoninu þann 20. ágúst renna í Sómalíusöfnunina.

Rauði krossinn dreifir matvælum daglega til þúsunda fjölskyldna í Mið- og Suður Sómalíu, þvert á átakalínur meðan stríð geisar þar. Á næstu vikum og mánuðum munu Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn veita um 50.000 börnum aðstoð á næringarmiðstöðvum hreyfingarinnar, og dreifa matvælum til um einnar milljónar manna.

Fríður hópur skákungmenna hlaut viðurkenningu fyrir framlag sitt til Sómalíusöfnunar Rauða krossins.