Maraþonskák til stuðnings Sómalíu skilaði hátt í tveimur milljónum króna

8. ágú. 2011

Ungmennin sem stóðu fyrir skákhátíðinni „Við erum ein fjölskylda“ söfnuðu um einni milljón króna um síðustu helgi. Upphæðin rennur í Afríkusöfnun Rauða krossins. Um 20 börn tóku þátt í maraþoninu og stóðu sig með miklum sóma. Maraþonið hafði einnig þau áhrif að símasöfnun Rauða krossins tók mikinn kipp og er álitið að skákhátíðin hafi skilað um einni milljón til viðbótar. Peningarnir verða notaðir til hjálparstarfs Rauða krossins í Sómalíu þar sem börn svelta heilu hungri.

„Það skiptir engu máli hvort þú vinnur eða tapar. Við erum bara að reyna að hjálpa börnum sem eru að deyja úr hungri. Margt smátt gerir eitt stórt,“ sagði Donika Kolica í viðtali við DV.

„Upphæðin sem hefur safnast, bæði hér í Ráðhúsinu og með símhringingum meðan á maraþoninu stóð, dugar til að kaupa bætiefnaríkt hnetusmjör til að hjúkra 1.300 alvarlega vannærðum börnum til heilbrigðis," sagði Þórir Guðmundsson sviðsstjóri alþjóðasviðs Rauða krossins. ,,Krakkarnir geta því sannarlega verið stoltir af framlagi sínu.“

Áfram verður tekið á móti framlögum í síma Rauða krossins, 904-1500.

Það var Skákakademía Reykjavíkur og Skáksamband Íslands sem stóðu fyrir maraþonskákhátíðinni í Ráðhúsi Reykjavíkur. Þar tefldu mörg efnilegustu börn og unglingar landsins við gesti og gangandi. Mótherjar krakkanna borguðu upphæð að eigin vali, sem rennur beint í söfnun Rauða kross Íslands vegna hinnar hræðilegu hungursneyðar í Sómalíu.

Kjörorð Skákhreyfingarinnar er „Við erum ein fjölskylda" og með skákmaraþoninu í Ráðhúsinu vilja ungir liðsmenn skákgyðjunnar á Íslandi sýna börnum í Sómalíu stuðning í verki.

Rauði krossinn dreifir matvælum daglega til þúsunda fjölskyldna í Mið- og Suður Sómalíu, þvert á átakalínur meðan stríð geisar þar. Þá njóta um 5.500 börn umönnunar í 40 næringarmiðstöðvum Rauða krossins og Rauða hálfmánans víðsvegar um landið. Rauði krossinn rekur einnig um 20 heilsugæslustöðvar um allt land og vinnur að vatnsveituverkefnum á þurrkasvæðunum. Öll framlög fara til þess að kaupa bætiefnaríkt hnetusmjör sem gefið er börnum á næringarmiðstöðvum Rauða krossins.