Þess vegna nær Rauði krossinn með mat til hungraðra

Þóri Guðmundsson, sviðsstjóra alþjóðasviðs Rauða krossins

29. júl. 2011

Þegar þetta er skrifað eru 5.500 börn í næringarstöðvum Rauða krossins í Sómalíu, þangað sem þau komu aðfram komin af hungri en er nú hjúkrað til heilbrigðis. Þessar næringarstöðvar eru meðal annars á svæðum al-shabaab uppreisnarmanna.

Rauði krossinn er að dreifa matvælum –baunum, matarolíu og hrísgrjónum – til þúsunda fjölskyldna í Mið- og Suður-Sómalíu, þvert á átakalínur á meðan stríð geysar.
Þá vaknar spurningin, hvernig getur Rauði krossinn náð til nauðstaddra á svæðum sem aðrir komast ekki inn á? Svarið er að finna í einstöku hlutverki Rauða krossins og áherslu samtakanna á óhlutdrægni og hlutleysi gagnvart aðilum átaka.
Alþjóða Rauði krossinn hefur unnið að hjálparstarfi í Sómalíu frá 1982. Hverjir sem þar hafa háð stríð – stjórnarher, skæruliðar, friðargæsluliðar, innrásarherir og byssumenn af ýmsu tagi – þá hefur Rauði krossinn reynt að halda uppi samskiptum við þá. Vinnuaðferð Rauða krossins er sú sama í Sómalíu og í Súdan eða á Sri Lanka.
Tilgangurinn er að útbreiða þekkingu um grundvallarreglur Genfarsamninganna um mannúðlega meðferð fanga og grið óbreyttra borgara. Þessi skilaboð hafa ekki alltaf náð í gegn eins og grimmdarverk sem framin hafa verið sýna. En á hinn bóginn fréttist ekki af óhæfuverkunum sem ekki voru framin vegna íhlutunar Rauða krossins.
Þessi stöðugu samskipti við alla átakaaðila leiða óhjákvæmilega til þess að þeir verða vel meðvitaðir um algjöra óhlutdrægni í mannúðarstarfi Rauða krossins og fara smám saman að treysta samtökunum til að hafa eingöngu velferð þeirra sem þjást að leiðarljósi. Þetta traust nýtist vel nú, þegar koma þarf matvælum til hungraðra á átakaslóðum.
Rauði kross Íslands hefur eyrnamerkt öll framlög íslensks almennings kaupum á vítamínbættu hnetusmöri. Það er merkileg fæða – hálfgert kraftaverkameðal – sem er notuð til að hjúkra börnum til heilbrigðis á 3-4 vikum. Fimmtán hundruð krónurnar sem menn gefa með því að hringja í 904-1500 fara 100 prósent til að kaupa hnetusmjör – og það er verið að gefa börnum á mestu hungursvæðunum þennan mat í dag, líkt og í gær og á morgun.