Góður árangur í Síerra Leóne

19. nóv. 2012

Greinin birtist í Morgunblaðinu 17.11.2012

Tæplega 300 manns hafa dáið af völdum kóleru í Síerra Leóne síðan faraldur braust þar út í sumar. Kólera getur dregið fólk til dauða á stuttum tíma ef ekkert er að gert. Tveir íslenskir sendifulltrúar Rauða krossins hafa undanfarið verið að störfum í Síerra Leóne og hefur góður árangur náðst við að draga úr útbreiðslu sjúkdómsins.

Visnar upp og deyr á nokkrum klukkustundum
Dánarorsök þeirra sem kólera dregur til dauða er ofþornun. „Þetta er niðurgangspest fyrst og fremst en munurinn á henni og öðrum niðurgangspestum er hvað kólera hefur í för með sér ofboðslega mikið vökvatap. Fólk kastar upp og fær niðurgang og missir marga lítra af vökva á einum degi. Þannig getur fólk dáið á ótrúlega skömmum tíma, það bara visnar upp og deyr á nokkrum klukkustundum ef ekkert er gert í málinu,“ segir Hlér Guðjónsson sem stjórnar kóleruverkefni Alþjóða Rauða krossins í Síerra Leóne. Auk Hlés er Kristjón Þorkelsson sendifulltrúi í landinu en hans sérsvið er vatnsöflun og hreinlæti.

Rauði krossinn sendi neyðarsveitir til landsins í ágúst til að bregðast við hraðri útbreiðslu kólerufaraldursins. Hlér tók svo við umsjón verkefnisins í september. Þúsundir sjúklinga fá læknisaðstoð á neyðarsjúkrahúsum Rauða krossins. „Strangt til tekið væri hægt að koma í veg fyrir öll dauðsföll af völdum kóleru með því að sjá til þess að fólk ofþornaði ekki. Ef það er gripið inn í snemma er hægt að koma í veg fyrir það með því að láta fólk drekka eða gefa því vökva í æð ef þetta er komið lengra og láta renna stanslaust,“ segir Hlér.

Þúsundir sjálfboðaliða Rauða krossins
Því hafa verið settar upp stöðvar þar sem fólk getur fengið vökvalausn með sykri og salti, sk. ORS (oral rehydration solution) til að byggja upp vökvabúskap líkamans. Rauði krossinn leggur þó ekki síður áherslu á fræðslu og forvarnir og fær nú um ein og hálf milljón manna í landinu hreinlætisfræðslu og betra aðgengi að hreinu vatni.

„Þetta er það sem við erum að gera núna, að byggja upp getu landsfélags Rauða krossins til þess að bregðast við kóleru í framtíðinni. Því þetta er alltaf undirliggjandi og blossar upp aftur og aftur. Alþjóða Rauði krossinn vinnur alltaf með félaginu í hverju landi og hér í Síerra Leóne hefur Rauði krossinn þúsundum sjálfboðaliða á að skipa sem ganga í störfin. Aðalatriðið er að þetta fólk viti hvað það á að gera þegar þetta kemur upp og því er lögð mikil áhersla á að þjálfa fólk og útvega því tól og tæki.“

Hlér segir Rauða krossinn í einstakri stöðu hvað varðar net sjálfboðaliða. „Ekki bara í Síerra Leóne heldur alls staðar í heiminum. Þess vegna erum við í svo góðri stöðu að bregðast við, því enginn annar hefur getu til að kalla út þúsundir manna til að bregðast við.“

Skortur á hreinu vatni og kömrum
Fátæktin í landinu er það sem fyrst og fremst veldur því að kólerufaraldrar koma reglulega upp. Þrátt fyrir að vera ríkt að auðlindum, þ.á m. gulli og demöntum, er Síerra Leóne meðal fátækustu landa heims eftir 11 ára borgarastríð sem þar ríkti frá 1991-2002. Yfir 120.000 manns létust í þeim átökum samkvæmt áætlun Sameinuðu þjóðanna.

„Fólk hefur ekki aðgang að hreinu vatni. Hér eru ekki almennilegir kamrar eða skólphreinsun þannig að meirihluti landsmanna hefur ekki þá hreinlætisaðstöðu sem þarf. Þegar kóleran fer af stað lendir þetta í matvælum og vatni, það rennur út í ár og þegar koma rigningar dreifist þetta út um allt. Þegar fólk hefur ekki aðgang að salerni heldur fer út fyrir bæinn eða þorpið þá er svo mikið smit í umhverfinu. Um leið og fólk hefur hreint vatn og salerni snardregur úr smiti, en í milljónalandi er þetta ekkert smáverkefni. Það gerist ekki á einni nóttu að byggja kamra fyrir milljónir manna.“

Rauði krossinn vinnur því einnig að því að bæta salernisaðstöðuna og gera við vatnsból og vatnsdælur. „Það sem gerist er að þegar brunndæla bilar þarf að setja fötu ofan í brunninn til að sækja vatn og þá ertu komin með smitleið.“

Börnin eru lykillinn
Ólæsi er vandamál í Síerra Leóne, þar kunna um 2/3 hlutar þjóðarinnar hvorki að lesa né skrifa. Menntun yngstu kynslóðarinnar fer þó vaxandi og Hlér segir Rauða krossinn leggja mikla áherslu á að gera þau að sendifulltrúum þekkingar. „Við teljum að mesti slagkrafturinn sé í gegnum krakkana, með því að innleiða hjá þeim góðar heilbrigðisvenjur og hreinlæti og auka skilning þeirra á því hvað kólera er og hvernig hún berst manna á milli. Þau geta svo kennt foreldrum og fullorðnum á heimilinu og þannig er hægt að breyta hegðunarmynstri þjóðarinnar.“

Dæmi eru um kólerufaraldra sem valda dauða þúsunda, svo sem í Simbabve og á Haítí. Óttast var í upphafi að faraldurinn í Síerra Leóne kynni að smita 30.000-40.000 manns. Síðustu tölur herma að 293 séu látnir og óttast var að faraldurinn færi úr böndunum þegar rigningartímabilið hófst í haust, en að sögn Hlés er hann í rénun.

„Útbreiðsla smitsjúkdóma fer hratt upp og hægar niður, en eftir því sem harðar er brugðist við í byrjun þeim mun hraðar rénar faraldurinn og þetta er eitt af því sem virðist hafa tekist vel í þetta skiptið. Þannig að þessi faraldur varð töluvert minni en búist var við og er á undanhaldi.“

Rauði krossinn alltaf að störfum
Hlér var í Gambíu áður en hann fór til Síerra Leóne. Hann gerir ráð fyrir að vera þar allavega fram í mars en framhaldið er óráðið. „Það þarf að haga seglum eftir vindi og við vitum ekki hvað gerist næst. Þegar eitthvað stórt gerist, eins og þessi kólerufaraldur hér, þá er allt sett í gang því batteríið er svo öflugt að við getum kallað út sendifulltrúa frá ýmsum þjóðum og sent inn neyðarsveitir.

Þetta er það sem maður heyrir svo oft um í fréttum, en maður heyrir minna af þessum daglegu störfum, þar sem þúsundir manna vinna að því á hverjum degi að breyta og bæta. Það er nú eiginlega þannig að Rauði krossinn er alltaf alls staðar.“
 

Þúsundir kólerusjúklinga í Sierra Leone fá aðstoð í neyðarsjúkrahúsum Rauða krossins.
Kristjón Þorkelsson sendifulltrúi Rauða krossins við brunn búinn handdælu.
Rauði krossinn leggur áherslu á forvarnarstarf til að koma í veg fyrir frekari kólerufaraldra í Sierra Leone.
Skólabörn í einum af þeim skólum þar sem börn fá heilbrigðis- og hreinlætisfræðslu frá Rauða krossinum. Börnunum eru kenndar grundvallarreglur um hreinlæti og um leið öðlast þau góðan skilning á smitleiðum og orsökum sjúkdóma.