Uggur um óbreytta borgara í Gaza

21. nóv. 2012

Alþjóða Rauði krossinn er uggandi yfir því hve mikill fjöldi óbreyttra borgara er meðal þeirra sem látið hafa lífið eða særst í átökunum milli Palestínumanna í Gaza og Ísraelsmanna.

Samkvæmt upplýsingum hafa hundruð flugskeyta frá Gaza verið skotið á Ísrael og valdið dauðsföllum og miklu eignatjóni. Á sama tíma hefur ísraelski flugherinn látið sprengjum rigna yfir Gaza. Allt að hundrað loftárásir hafa verið gerðar á hverjum degi undanfarið og fjöldi óbreyttra borgara sem látið hefur lífið eða særst í árásunum fer vaxandi. Daglegt líf í Gaza hefur ætíð verið erfitt, en átökin nú reyna enn frekar á alla íbúa þar.

„Þessi mikla aukning þeirra sem þurfa að leita sér læknishjálpar hefur valdið miklu álagi á sjúkrahúsin í Gaza. Alþjóða Rauði krossinn hefur því þurft að senda auknar birgðir af sjúkragögnum svo hægt sé að mæta þörfinni nú síðustu daga,” segir Patrick Gueissaz, yfirmaður skrifstofu Alþjóða Rauða krossins í Gaza. „Við eigum þegar í erfiðleikum með að dreifa nægum birgðum, og ef ástandið versnar munum við engan veginn ná að anna þeirri þörf.”

Alþjóða Rauði krossinn fylgist náið með ástandinu og fundar reglulega með ísraelskum og palestínskum yfirvöldum. Rauði krossinn minnir alla aðila að átökunum á að fara eftir alþjóðlegum mannúðarlögum, og þá sérstaklega að greina milli hernaðarlegra skotmarka og borgarlegra, svo ekki sé minnst á saklausa borgara.