Neyðaraðgerðum vegna kóleru í Síerra Leóne að ljúka

7. jan. 2013

Rauði krossinn í Síerra Leóne vinnur nú að fyrirbyggjandi aðgerðum ásamt því að reyna að greina hver voru upptök kólerunnar sem blossaði upp í landinu fyrr á þessu ári. Tveir sendifulltrúar Rauða krossins á Íslandi, Kristjón Þorkelsson og Hlér Guðjónsson hafa tekið þátt í að vinna gegn útbreiðslu kólerunnar og munu fylgja verkefninu allt til enda á næstu vikum.

Kristjón Þorkelsson er sérfræðingur í vatns- og hreinlætismálum og einn reyndasti sendifulltrúi Rauða krossins á Íslandi. Hann fór fyrir alþjóðlegu teymi sem setti upp hjálparstarf Rauða krossins vegna kólerunnar. Kristjón er nú staddur í leyfi á Íslandi, en heldur aftur til Síerra Leóne í næstu viku til að ljúka aðgerðum þar.

Kristjón segir margt óljóst varðandi smitleiðir kólerunnar sem kemur upp reglulega í Síerra Leóne.

„Kóleran blossar oftast upp í sömu tveimur héruðunum í landinu, en smitleiðir eru ekki í gegnum vatnsból líkt og algengast er," segir Kristjón. „Svo virðist sem smitið komi úr skeldýrum sem veidd eru við strendurnar, og berist annað hvort frá manni til manns eða í gegnum fæðu.”

Sérfræðikunnátta Kristjóns hefur komið að góðum notum við baráttuna gegn kólerusmitinu og takist að finna uppruna þess er möguleiki á að gera smitsjúkdóminn útlægan í Síerra Leóne. Þá segir Kristjón sjálfboðaliða Rauða krossins hafa unnið þrekvirki með fræðslu og aðstoð um notkun salt- og sykurupplausnar til að koma í veg fyrir ofþornun líkamans, en hún dregur flesta sjúklinga til dauða.

Rauði krossinn á Íslandi studdi neyðaraðgerðirnar með fjárstyrk frá almenningi og ríkisstjórn Íslands. Hlér Guðjónsson, sendifulltrúi stýrir aðgerðunum á vettvangi.