Þrjú ár liðin frá jarðskjálftanum mikla á Haítí

11. jan. 2013

Þann 12. janúar eru þrjú ár liðin frá því að jarðskjálftinn mikli skók Haítí og varð um 220,000 manns að bana.  Höfuðborgin Port-au-Prince og nágrenni hennar varð einna verst úti þar sem 2,1 milljónir manna misstu heimili sín og þurftu aðstoð hjálparsamtaka.

Rauði krossinn á Íslandi brást undireins við neyðarbeiðni frá Haítí, og var fyrsti íslenski hjálparstarfsmaðurinn kominn á vettvang tveimur dögum eftir skjálftann. Rauði krossinn sendi alls 31 hjálparstarfsmann til neyðarstarfa sem er mesti fjöldi íslenskra sendifulltrúa sem Rauði krossinn hefur sent á einn stað á svo stuttum tíma.

Hjálparstarfsmennirnir unnu að fjölbreyttum verkefnum í neyðaraðgerðum Alþjóða Rauða krossins, og tóku meðal annars þátt í skipulagningu á hjálparstarfinu og uppbyggingarferlinu, vatnshreinsun og heilbrigðismálum, og dreifingu hjálpargagna. Þá störfuðu 4 læknar og 14 hjúkrunarfræðingar á tjaldsjúkrahúsum og með heilsugæslusveitum Rauða krossins.

Rauði krossinn varði alls  um 108 milljónum króna til hjálparstarfs á Haítí á árunum 2010 – 2012. Þar af voru 45 milljónir króna söfnunarfé frá almenningi og tombólubörn lögðu fram 1,1 milljón. Ríkisstjórnin lagði til 13, 5 milljónir króna og sveitarfélög 16,1 milljón króna.  Um 30 milljónir króna voru lagðar fram úr neyðarsjóði Rauða krossins.

Auk neyðaraðstoðar tók Rauði krossinn á Íslandi þátt í þriggja ára verkefni sem fólst í því að veita þolendum skjálftans áframhaldandi sálrænan stuðning, með áherslu á börn. Á tveimur árum hefur þessi stuðningur náð til 60 þúsund einstaklinga, þar af 45 þúsund barna, sem þýðir að fjöldi barna sem Rauði krossinn á Íslandi studdi á Haítí er svipaður og fjöldi barna í grunnskólum á Íslandi.

Þá hafa innlendir sjálfboðaliðar á vegum Rauða krossins á Haítí fengið umfangsmikla þjálfun til að sinna sálrænum stuðningi svo að nú eru yfir 200 sjálfboðaliðar reiðubúnir að veita slíka þjónustu, t.d. í kjölfar fellibylja sem reglulega ríða yfir eyjuna. Þannig hefur tekist að efla eigin viðbúnað heimamanna sem er öflugri núna en fyrir jarðskjálftann.

Uppbyggingarstarf á Haítí mun taka langan tíma þó mikið hafi áunnist á þremur árum. Enn dvelja um 350,000 manns í búðum og eru berskjaldaðir fyrir náttúruhamförum, kóleru og öðrum smitsjúkdómum. Alþjóða Rauði krossinn hefur unnið að því að koma um 200,000 manns í varanlegt húsaskjól og mun halda áfram þeirri vinnu.  Um gífurlega flókið verkefni er að ræða því tryggja þarf löglegan eignarrétt á landinu sem byggt er á og eins að byggingar þoli ágang ofsaveðurs og jarðskjálfta. 

Sjá má myndasýniningu af hjálparstarfi Rauða krossins á Íslandi.