Fimm ár liðin frá flóðbylgjunni miklu í Asíu

23. des. 2009

Þann 26. desember árið 2004, annan dag jóla, varð heimsbyggðin vitni að einum mestu hamförum sögunnar þegar flóðbylgja skall á fjölmörgum löndum í Asíu og austurstönd Afríku. Mörg hundruð þúsund manns fórust, og milljónir manna í þessum löndum þurftu á tafarlausri neyðaraðstoð að halda.

Gífurleg samstaða Íslendinga eftir hamfarirnar í Asíu þann 26. desember 2004 kom strax í ljós - meðal annars fram í framlögum almennings, stjórnvalda og fyrirtækja til hjálparstarfs Rauða krossins. Hjálparstarfið hófst tafarlaust hjá sjálfboðaliðum Rauða krossins á hamfarasvæðunum, og alþjóðleg neyðaraðstoð var skipulögð innan nokkurra klukkustunda frá því flóðbylgjan reið yfir. Það fé sem Rauða krossi Íslands var trúað fyrir af íslenskum almenningi nam samtals rúmlega 170 milljónum króna. Til viðbótar má telja vörur og þjónustu sem metin er á alls um níu milljónir króna.

Féð safnaðist að hluta á fyrstu dögunum eftir hamfarirnar og að hluta í sameiginlegri fjársöfnun helstu félagasamtaka sem komu að hjálparstarfi á flóðasvæðum, Neyðarhjálp úr norðri. Frá upphafi lagði Rauði kross Íslands mikla áherslu á að ráðstafa fénu í nánu samráði við Alþjóða Rauða krossinn og heimamenn sjálfa, einkum í þeim tveimur löndum sem urðu verst úti, Sri Lanka og Indónesíu.

Skipta má aðstoð Rauða kross Íslands í fjóra þætti: Neyðaraðstoð fyrstu vikur og mánuði, útvegun sendifulltrúa á hamfarasvæðið (alls 18 sendifulltrúar), stuðning við eftirlifendur og að lokum langtíma uppbyggingu sem enn er ekki að fullu lokið.

Rauði kross Íslands hefur sett upp sérstaka vefsíðu í tilefni af því að fimm ár eru liðin frá því að flóðbylgjan skall yfir. Þar er gerð grein fyrir í hvaða verkefni framlög almennings, stjórnvalda og fyrirtækja fóru, og rætt við nokkra af sendifulltrúunum sem störfuðu í Aceh í Indónesíu og á Sri Lanka. Upplýsingarnar er að finna á vefslóðinni raudikrossinn.is/tsunami