Viðamikið hjálparstarf vegna flóðanna í Pakistan

9. ágú. 2007

Enn stendur yfir hjálparstarf vegna flóðanna sem urðu í Pakistan fyrr í sumar. Miklar rigningar, hiti og flóð hafa valdið því að íbúar í héruðunum Baluchistan og Sindh búa nú við skelfilegar aðstæður. Í kjölfar flóðanna sendi Alþjóða Rauði krossinn nokkur neyðarteymi til að veita fórnarlömbum flóðanna í Pakistan nauðsynlega heilbrigðisþjónustu og sjá þeim fyrir hreinu vatni. Sólveig Þorvaldsdóttir sendifulltrúi Rauða krossins, fór utan í byrjun júlí sem meðlimur í níu manna vettvangsteymi til að meta aðstæður og koma hjálparstarfinu af stað. Hún segir að aðkoman hafi verið mjög slæm.

„Bláfátækar bændafjölskyldur misstu heimili sín og lífsviðurværi þegar flóðgarðar brustu og veituskurðir flæddu yfir bakka sína vegna óvenjumikillar úrkomu. Sumum var búið að koma fyrir í neyðarskýlum, s.s. í skólum, við alltof þröngan kost og ömurlega hreinlætisaðstæður. Aðrir leituðu hælis á vegum eða flóðgörðum sem stóðu enn upp úr flóðinu, og enn aðrir innlyksa í þorpum sínum og gátu sér enga björg veitt.”

Herinn hófst handa strax við að flytja fólk á örugg svæði og Rauði hálfmáninn veitti neyðarhjálp sem fólst í því að útvega fólki mat og tjöld til að veita skjól frá sólinni, en hitinn gat farið upp í 46 stig. Pakistanski Rauði hálfmáninn hefur dreift rúmlega 13.000 matarpökkum til fjölskyldna sem eiga um sárt að binda vegna hamfaranna og 14.000 manns hafa fengið læknisaðstoð frá hjúkrunarteymum landsfélagsins.

„Niðurstaða vettvangsteymisins var að mikil þörf væri á hjálpargögnum til að sinna grunnþörfum fólks, að auka þyrfti læknisaðstoðina og framboð á drykkjarhæfu vatni, svo og að hreinsa þyrfti hreinlætisaðstöðuna í skólunum til að fyrirbyggja útbreiðslu sjúkdóma. Einnig að nauðsynlegt væri að hjálpa fólki með tól og búnað til að endurbyggja heimili sín þegar flóðið rénaði því héraðið er frjósamt landbúnaðarsvæði og ekki auðvelt fyrir fólk að finna nýtt land til að búa á. Hjálparstarfið er komið vel af stað en það tekur tíma að koma hjálpinni til allra,” segir Sólveig.

Rauði kross Íslands hefur lagt til tvær milljónir króna til hjálparstarfsins í Pakistan. Hægt er að styðja hjálparstarfið með því að hringja í söfnunarsíma Rauða krossins 907-2020. Við hvert símtal leggur viðkomandi fram 1.200 krónur sem dragast af símreikningi. Einnig er hægt að greiða inn á reikning hjálparsjóðs í banka 1151, hb. 26, reikn. 12, kt. 530269-2649 eða smella hér.

Hægt er að lesa meira um flóðin í Asíu og víðar hér