Eftir tsunami

Gunnar Hersvein

27. des. 2005

Stutt útgáfa að þessari grein birtist í Tímariti Morgunblaðsins þann 24.12.2005, en hér birtist hún í fullri lengd í tilefni af því að eitt ár er liðið frá flóðbylgjunni við Indlandshaf. Af sama tilefni verður opnuð ljósmyndasýning í Smáralindinni þann 27.12. en þar verða sýndar myndir eftir Þorkel Þorkelsson ljósmyndara. Hann tók myndirnar í Aceh héraði í Indónesíu og á Sri Lanka í september.
Tuttugasti og sjötti desember 2004 átti bara að vera venjulegur dagur í strandhéruðum Indónesíu, Sri Lanka, Maldavíeyja, Indlandi, Thailandi, Búrma (Myanmar), Malasíu, Bangladesh, Seychelles og Sómalíu, en atburðir þennan dag áttu eftir að greipast inn í hug og hjarta fólks um víða veröld. Aceh héraðið í Indónesíu varð verst fyrir barðinu á ógnaröflum náttúrunnar þennan dag.

Ferðamenn hvaðanæva úr heiminum höfðu komið sér fyrir á ströndum landa eins og Thailands, aðrir voru enn á hótelunum sínum. Börn léku sér úti og sinntu ýmsum verkefnum, heimamenn voru komnir í vinnuna, hvort sem það tengdist ferðaþjónustu eða öðrum þáttum. Á vesturströnd Indónesíu og á norðaustanverðri Sri Lanka voru engir ferðamenn heldur aðeins fátækir bændur sem lögðu stund á fiskveiðar og búskap.

Sjónarvottum ber ekki saman um lýsingar, en eitthvað vofði yfir eftir jarðskjálftann. Röð æ hærri alda barst að landi, hver þeirra fjaraði út og tók marga með sér en loks skall allt að tíu til tólf metra risavaxin flóðbylgja á vesturströnd Súmötru í Indónesíu og á strendur margra landa við Indlandshaf. Ástæðan var neðansjávarjarðskjálfti sem átti upptök sín vestur af Súmötru í Indónesíu og var hinn mesti í heiminum í 40 ár, mældist níu stig á Richters-kvarða.
Að minnsta kosti 225 þúsund manns létust í hamförunum og þar af um það bil 165 þúsund í Aceh héraðinu í Indónesíu sem áður bjuggu í um 300 þúsund. Tölur um látna segja ekki alla söguna því aðrar tölur segja til um hversu margir misstu ástvini sína, heimili, vinnu og von sína. Alþjóða Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn hafa til að mynda veitt tæplega tveimur milljónum einstaklinga aðstoð í tíu löndum. Um alla Banda Acehborg mátti lengi finna veggspjöld þar sem fólk var að lýsa eftir týndum ættingjum

AÐ LEGGJA ÖÐRUM LIÐ
Birna Halldórsdóttir sendifulltrúi Rauða krossins fór til starfa í Aceh á Súmötru í Indónesíu  6. janúar 2005 og kom aftur heim 7. apríl. Hún stýrði dreifingu hjálpargagna á vegum Alþjóðaráðs Rauða krossins. Birna er með BA próf í mannfræði og hefur frá árinu 1990 aðallega unnið við dreifingu matvæla og hjálpargagna í ýmsum löndum. Hún segir að verkefnið í Aceh héraðinu hafi verið ákafalega gefandi og jafnframt reynt mikið á hana bæði andlega og líkamlega.

„Ég kom til Aceh tveimur vikum eftir flóðið en þá þegar var heimafólkið farið að taka fullan þátt í starfinu sem lág fyrir. Allir voru á einn eða annan hátt að leggja öðrum lið. Sumir voru fjarrænir á svipinn eftir missinn en aðrir lifðu sig inn í vinnuna. Kannski var það eina leiðin til að takast á við áfallið?? segir Birna og að sennilega hafi áfallahjálpin falist í því að gera það sem þurfti að gera. ?Enginn var undanskilinn, allir höfðu misst og því var engin togstreita á milli hópa."

Birna segir að í Aceh héraðinu búi múslimar sem ræki trúna að fullri alvöru og eftirlifendur leggi stund á trúartilbeiðslu alla daga. Hún metur það svo að forlagatrúin leiki einnig stórt hlutverk, trúin að allt sé í höndum Guðs en ekki á valdi mannanna sjálfra. Hugsunin sé sú að einstaklingarnir hafi ekkert haft með það að gera hvort þeir létust í hamförunum eða lifðu af. „Auðvitað velta sumir því fyrir sér hvort hér hafi verið um refsingu að ræða og auðvitað eru ekki allir sammála um merkingu tsunami en ég er þess fullviss að trúartilbeiðslan kemur að mörgu leyti í stað áfallahjálpar á vettvangi," segir hún og að tilbeiðslan hjálpi fólki út úr þessari tilfinningakreppu.

Aceh héraðið er flatlent, fyrst skók jarðskjálftinn svæðið og síðan skall flóðbylgan á og þetta tvennt lagði allt í rúst. Skip sem lónaði fyrir utan sigldi fimm kílómetra inn í borgina Banda Aceh og bátur strandaði ofan á húsþökum. Fyrst barst minni bylgja og síðan komu tvær stórar og sú veigamesta. Birna segist hafa uppgötvað óvissuna sem bjó með fólkinu þegar hún sá ungan mann sem var með þeim í för lifna af gleði við að sjá vin sinn og hrópa uppyfir sig: ?Hann er á lífi, hann er á lífi? og fagnaðarfundir þeirra voru innilegir. Þá sá hún að auðvitað vissu fæstir hver af ástvinum sínum og vinum var á lífi og hver látinn.

Líf og byggð þurrkaðist næstum út á vestur- og norðvesturströnd Aceh héraðins og þar stóð  aðeins moskan eftir, hún var best byggða byggingin og með opnum gáttum sem sjórinn átti leið í gegnum. ?Erfiðust var nályktin,? segir Birna, ?það var eins og ég gengi á vegg þegar ég mætti henni fyrst, hryllileg lykt og alls staðar líkpokar meðfram vegum sem við fórum og fólk að veiða upp líkin úr vatninu.?

Birna vissi að hjálparstarfið skipti sköpum. „Mér finnst ég vera að gera gagn. Við dreifðum matvælum, tjöldum, heimilispökkum, nærfötum og hreinlætisáhöldum til að fólk gæti komið sér aftur fyrir ef húsin þeirra stóðu enn. Þar með var verkefni okkar lokið. Yfirleitt kemur maður inn í verkefni og er í hálft ár og fer án þess að klára en þarna gekk ég í gegnum allan ferilinn, þótt það þurfi að halda honum við næstu árin og aðrir taki við. Þetta tók ofboðslega á og ég hef aldrei verið eins þreytt," segir hún.

FLEIRI JARÐSKJÁLFTAR
Birna upplifði jarðskjálfta í Banda Aceh í lok mars á þessu ári, hann var 8.2 á Richter og átti upptök sín við eyjuna Nías. ?Ég sat í herberginu mínu og var að vinna á tölvuna þegar vatn í flösku sem stóð á borðinu fór á hreyfingu," segir hún. ?Skjálftinn varð rétt fyrir miðnætti og fyrsta hugsun var að sitja hann af mér en þegar rafmagnið fór tóku verðir að kalla á mig. Ég paufaðist niður í myrkrinu og mætti strák á leiðinni og við leiddust út. Þegar út á stéttina var komið hristist jörðin ennþá, þannig að hann stóð lengi yfir. Fólk þusti út og þeir sem höfðu yfir farartæki að ráða keyrðu burt en aðrir hlupu. Þyrlur flugu yfir 15 mínútum eftir skjálftann og kallað var í gjallarhornum að ekki væri von á flóðbylgju. Einnig komu hermenn og tilkynntu það sama og sögðu að ef hætta væri á ferðum yrði fólk varað við. Eftir um það bil klukkustund kom fólkið til bakað. Þetta sýndi mér að hræðslan býr með fólki og viðbrögðin eru í sjálfu sér eðlileg.?

Birna skrifaði greinargott bréf um störf sín í Aceh héraðinu og birtist það á www.redcross.is, þar sagði hún meðal annars. ?Flestir hérna á svæðinu hafa misst einhvern nákominn og margir sem hafa misst nær alla fjölskylduna. Yfir fjórðungar borgarbúa er dáinn og annað eins er saknað, að öllum líkindum einnig látnir. Ímyndið ykkur ef nær helmingur Íslendinga létist í eldgosi. Ég átti tal við mann í einum af kömpunum. Hann kom af vesturströndinni. Íbúarnir í þorpinu sem hann kom frá voru fimm þúsund, eða eins og íbúar Vestmannaeyja, af þeim voru aðeins 600 manns á lífi. Það er varla hægt að setja sig í spor þessa fólks. Þetta er svo ótrúlegur fjöldi sem er horfinn.?

Bréf hennar er átakanlegt, hér er aðeins brot til viðbótar: ?Sjómaðurinn sem ég fór með í vettvangskönnun til Sabang, eyja norður af Banda Aceh var einn af þeim sem missti nær alla fjölskylduna. Hann var úti á sjó þegar ósköpin dundu yfir og hafði ekki orðið var við það sem hann síðar sá þegar hann sneri til baka. Það var ófögur sjón sem blasti við honum þegar nær dró landi. Sjórinn rauðleitur, bæði lifandi og látnir á floti ásamt alls konar braki sem fylgdi öldunni þegar hún fór til baka. Hann hófst handa við að bjarga þeim sem voru á lífi og koma þeim út í nálæga eyju þar sem var öruggt skjól. Þegar hann síðan komst að heimaströnd, þar sem höfnin var með öllu horfin var húsið hans ásamt fjölskyldunni ekki þar, að undanskyldum einum syni sem hafði verið í heimsókn annars staðar í borginni.?

AÐEINS EIN LJÓSMYND
Blaðamaður ræddi við Ómar Valdimarsson sendifulltrúa Rauða kross Íslands um Banda Aceh en hann var að störfum fyrir Alþjóða Rauða krossinn, staðsettur á Jakarta í Indónesíu, þegar jarðskjálftinn og flóðbygljan reið yfir. Við settum saman líkingu út frá einni sögunni sem hann sagði:

Fjölskyldufaðir í Reykjavík stendur einn eftir; heimilið er horfið, börnin tvö dáin, eiginkonan, foreldrar, tengdaforeldrar, vinir og vinnufélagar. Starfið hans er ekki lengur til og engar minjar um neitt eða sönnunargögn, ekkert, enginn hlutur, aðeins ein ljósmynd af fjölskyldunni. Og borgin, hún er í rúst frá Seltjarnarnesi uppí Hlíðahverfið. Hann á ekkert nema fötin sem hann klæðist líkt og öll fortíðin hafi verið þurrkuð út. Svona er staðan. Núna býr hann í tjaldi með fólki sem hann kannast ekki við. Ef til vill flytur hann ekki í mannsæmandi híbýli fyrr en árið 2008. Hvernig byrjar þessi maður nýtt líf?

Sagan sem Ómar sagði var af fjölskylduföður í Banda Aceh. Þeir tveir voru saman í bifreið og maðurinn tók skyndilega upp símann sinn og sýndi Ómari mynd sem hann hafði tekið í gegnum símann af konunni sinni og börnum sem fórust í tsunami flóðbylgjunni. Myndin var af það eina sem hann átti, enginn úr stórfjölskyldunni hafði lifað af og engir hlutir varðveist, hvorki pottur né panna. Maðurinn hafði sjálfur sokkið á kaf í bylgjunni og glatað símanum sínum einnig, en með einhverjum hætti rataði síminn í hans hendur aftur. Hann tók símkortið úr og setti í nýjan síma og þar var þessi eina mynd af fjölskyldunni hans og það var það eina sem hann átti úr fortíð sinni.

NEYÐARHJÁLP ÚR NORÐRI
Ómar Valdimarsson hefur undanfarin tíu ár starfað á vegum hjálparsamtaka og hafði unnið með landsfélagi Rauða krossins í Indónesíu frá árinu 2003. „Við vorum örfá þarna í fyrstu en svo streymdu að Rauða kross félagar hvaðanæva úr heiminum og okkar hlutverk var að samhæfa aðgerðir," segir hann og þá eru ónefndir hjálparstarfsmenn frá öllum öðrum samtökum, en það er hlutverk alþjóða Rauða krossins að skipuleggja aðgerðir á hamfarasvæðum í samráði við landsfélög. Ómar hafði nýlokið við að taka þátt í að leggja lokahönd á stefnuáætlun um viðamiklar aðgerðir í Indónesíu þegar tsunami flóðbylgjan skall á og nýttist sú áætlun mjög vel.

Feikilega mikið fé barst frá heimsbyggðinni til hjálparstarfsins. Hér á Íslandi stóð yfir landssöfnunin Neyðarhjálp úr norðri og unnu fimm hjálparstofnanir saman að söfnuninni; Barnaheill - Save the Children á Íslandi, Hjálparstarf kirkjunnar, Rauði kross Íslands, UNICEF Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna og SOS barnaþorp. Söfnunin stóð yfir í nokkra daga og söfnuðust ríflega 110 milljónir króna til hjálpar fórnarlömbum flóðanna í Asíu.

Vopnuð átök hafa staðið milli stjórnvalda í Indónesíu og Aceh héraðs í yfir 30 ár og voru herlög í gildi þegar tsunami átti sér stað, héraðið var því lokað og einungis tveir útlendingar voru á svæðinu þegar hamfarirnar urðu, annar frá Alþjóða Rauða krossinum og hinn á vegum Sameinuðu þjóðanna. Margir karlmenn voru vopnum væddir til fjalla annan dag jóla og er það ein af ástæðunum fyrir því að fleiri börn og konur sem voru heima töpuðu lífinu en karlar. Átökin héldu áfram en í ágúst síðastliðinum var loks ritaðu undir friðarsamkomulag. Margir þessa karlmanna glíma við samviskubit yfir að hafa ekki verið til staðar heima og ímynda sér að þeir hefðu ef til vill getað bjargað fjölskyldum sínum hefðu þeir verið með þeim.

„Menningin í Aceh héraði breytist óhjákvæmilega vegna þess að nú eru þar margir útlendingar, tæki, tól og búnaður, en áður var landbúnaðurinn ekki tæknivæddur og framandi viðhorf áttu ekki greiðan aðgang að þessu bláfátæka fólki," segir Ómar. Hann telur að verkefnum hjálparstofnana ljúki ekki í Aceh fyrr en eftir tíu ár og býst við að sumir íbúanna þurfi að búa í bráðabirgðahúsnæði eins og tjöldum jafnvel til ársins 2008 þótt ekki skorti fé til bygginga. Aftur á móti hafa skjöl um eignarétt lóða glatast og tefur það stjórnvöld í því að segja til um hvar megi byggja og hvar ekki. Auk þess eru lenda- og lóðamál í Indónesíu afar flókin, það er ekki hefð fyrir því að taka eignarnámi og mikið lagt uppúr því að menn séu sammála um niðurstöður. Núna hefur tjöldum þegar verið dreift í tvígang vegna þess að eldri tjöldin morkna, slitna og fúna.

Í TJALDI Í MÖRG ÁR?
Þorkell Þorkelsson ljósmyndari var með í för þegar Rauði krossinn kom með ný tjöld til Aceh. Það var í september síðastliðnum er von var á monsúnrigningum. Hann og Maude Fronberg sendifulltrúi hittu meðal annars unga konu að nafni Irawati sem býr í tjaldi með eiginmanni sínum og tveimur börnum. Tjaldið þeirra var orðið ansi lúið, komin voru á það lítil göt og sumarnir farnir að rifna. Hún þiggur nýtt tjald með þökkum. Níu mánuðum eftir flóðbylgjurnar bjuggu enn um 26 þúsund fórnarlömb í Aceh Barat og nágrenni enn í tjöldum og skýlum. Maður sem Þorkell og Maude mættu sagði við þau: „Við höfum öll glímt við það sama, svo ég þarf ekki að gráta."

Indónesía er land eilífðra jarðskjálfta, eldfjalla, flóða og skriðufalla, sennilega eru um 140 virk eldfjöll í Indónesíu. Eftir tsunami í Aceh þustu að sjálfboðaliðar víða frá Indónesíu sem tóku til við að finna, safna saman og koma til greftrunar tugum þúsundu látinna, þetta var iðulega ungt fólk sem vann þetta starf svo vikum skipti.

Það sem stendur uppúr eftir reynslu hjálparstarfsmanna að dæma er ótrúleg þrautsegja íbúanna og aðlögunarhæfni fólks og það er mörgum óskiljanlegt að hægt sé að byggja upp lífið að nýju, en það er gert. Auðvitað er hlutskipti manna æði misjafnt og sumir fá en aðrir ekki, en mörg dæmi eru um að foreldrar sem hafa misst börn sín hafi tekið að sér börn sem hafa misst foreldra sína. Vonin um betra líf knýr þau áfram.

LAGERMAÐURINN
Baldur Steinn Helgason var sendifulltrúi Rauða kross Íslands í hálft ár í borginni Banda Aceh á eynni Súmötru. „Meira en þriðjungur íbúa borgarinnar fórust, en þessar tölur segja ekki mikið um hvernig þessu fólki líður," segir hann. Vinna mín fyrir Alþjóða Rauða krossinn í Banda Aceh gekk út á að sjá um vörugeymslu og dreifingu hjálpargagna í héraðinu. Vörur til dreifingar eru flestar keyptar í stærri borgum Indónesíu, einnig sá ég um bókhaldið."

„Stúlka sagði við mig að flóðbylgjan hefði komið eins og munnur sem gleypti fólkið og tók það aftur með sér út á haf,? segir Baldur sem er 28 ára gamall og hefur stundað nám í mannfræði og skipulagsfræði, en Rauði kross Íslands styrkti hann til að vinna í Banda Aceh. Hann var með 44 starfsmenn í vöruskemmunni og hafði með tímanum lært að ræða við fólkið. Hann spurði til dæmis „Hvar er fjölskyldan þín" og fengið hiklaust svar „Hún fór öll með tsunami." Baldur segir að sumir hafi komið fram af rósemd en aðrir hafi verið niðurbrotnir að sjá. „Viðbrögðin eru mjög misjöfn, en yfirhöfuð er fólk ótrúlega sterkt og það leitar mikið í trúna, enda Aceh eina héraðið í Indónesíu þar sem Íslamslög gilda. Fólk leggur reglulega niður vinnu og tekur til við tilbeiðslu, það er ef til vill hluti af sorgarferlinu."

Baldur og samstarfsmenn hans unnu sjö daga vikunnar fyrst í stað, en eftir að líða tók á var reynt að setja vinnuna í skorður og starfa sex daga og hafa hinn sjöunda frídag. Einnig voru það skilaboð frá yfirvöldum að virða 40 daga vinnuviku. ?Það gaf mér mikið að vinna á þessu svæði þótt ég væri úrvinda þegar ég kom heim, ég lærði heilmikið á þessu og get vonandi nýtt þá reynslu síðar,? segir Baldur sem nú hefur hafið störf í Níger í Afríku.

SRI LANKA
Í Sri Lanka fórust um það bil 31.000 manns, 21.000 slösuðust  og 5.000 hafa ekki komið fram og um 500.000 eru heimilislausir. Elín Jónasdóttir sálfræðingur starfaði fyrst á Sri Lanka sem verkefnisstjóri í áfallahjálp eða sálfélagslegum stuðningi á austurhluta eyjarinnar frá því í lok janúar fram í júlí. Elín kom þar upp skrifstofu, réði starfsfólk og sá um að sjálfboðaliðar yrðu þjálfaðir til að veita áfallahjálp. Verkefnið er í samvinnu Rauða kross Íslands við danska Rauða krossinn og síðan í samvinnu við Sri Lanka Rauða krossinn. Verkefnið er styrkt af ECHO (European Community Humanitarian Organization).  Elín starfaði síðar sem ráðgjafi fyrir danska Rauða krossinn á Sri Lanka fyrir verkefnið í heild, það var núna í desember.

Elín starfaði í Trincomalee héraði á norðaustanverðri Sri Lanka en þar búa um það bil 380 þúsund manns. Flóðbylgjan olli miklum hörmungum í Trincomalee og að minnsta kosti 1100 fórust og 30 þúsund fjölskyldur voru án heimilis.
Elín var reyndar stödd á Sri Lanka þegar Tsunami reið yfir, hún var í heimsókn hjá eiginmanni sínum, Magnúsi Norðdahl lögfræðingi ASÍ sem starfaði við vopnahlésgæslu í landinu. Þau ætlaðu að vera saman um jólin en Magnús var strax sendur af stað til að aðstoða eftir flóðbylgjuna. Vopnahlé ríkir milli Tamíl tígra og stjórnvalda og er vopnahlésgæslan í höndum Norðmanna og annarra Norðurlanda. Fjórir Íslendingar eru að störfum í þessum hópi.
Sonur þeirra hjóna, dóttir og tengdasonur voru í flugvél á leið til þeirra þegar hamfarirnar urðu. Dóttir þeirra Margrét Norðdahl myndlistarmaður kom síðar við sögu því hún leiðbenti börnum, unglingum og konum á Sri Lanka við að tjá tilfinningar sínar með myndlist og teikningum. Verkin voru síðar sett upp á sýningu í höfuðborg landsins og hafa nú verið gefin út á vegum Alþjóðasambands Rauða krossins, Sri Lanka Rauða krossins og danska Rauða krossins sem dagatal 2006.

?Fyrst vorum við að sinna fólki vegna Tsunami Verkefnið var síðar víkkað út seinnipart ársins, því mikil þörf var að sinna einnig öðrum sökum fátækar og afleiðinga af langvarandi stríðsátökum,? segir Elín og segir að margir hafi þurft að takast á við stríð og átök í áratugi. ?Við vorum að vinna í 18 búðum en búðirnar voru í allt 56. Danski RK starfar í samstarfi við landsfélag RK í Sri Lanka. Deildin í Trincomalee var fyrst til að bregðast þar við tsunami í Trincomalee á meðan stjórnvöld gerðu lítið í fimm til sex daga,? segir Elín ?Við vorum mjög stolt af Rauða kross deildinni í Trincomalee.?

Hún segir að ákveðið hafi verið að ná til fólksins á fjarlægum svæðum í Trincomalee héraði en ekki bara í borginni. Vegirnir voru hræðilegir og sífelldar hindranir, því komast þurfti í gegnum varðstöðvar bæði hjá hernum og Tamíl tigrunum. Ætlunin var fyrst að starfa í búðum Singalesa, múslima og Tamíla en fljótlega kom í ljós að frekar var greitt var úr vanda Singalesa sem eru þriðjungur íbúa á svæðinu. Búðirnar voru því skiptar á milli múslima og Tamíla. ?Margir einstaklingar voru bæði þjakaðir af stríðsátökum og flóðbylgjunni sem þurrkaði allt út,? segir Elín. 

GESTRISNIN LIFIR ENN
Verkefni hennar fólst meðal annars í því að þjálfa sjálfboðaliða í landsfélaginu til að stunda sálfélagslegan stuðning. Heimamenn fóru síðan til vinnu í búðunum með þá þekkingu. ?Við störfum á þennan hátt til að geta skilið þekkinguna eftir, svo við tökum hana ekki með okkur aftur þegar við yfirgefum svæðið. Við þjálfuðum alveg frábært fólk sem var á aldrinum 19-29 ára, en sumt af því átti sjálft um sárt að binda,? segir Elín.  Kolbrún Þórðardóttir hjúkrunarfræðingur tók við af Elínu og er nú að störfum í Sri Lanka. Elín segist hafa verið svo lánsöm að vinnuveitandi hennar, Skólaskrifstofa Hafnarfjarðar og fræðsluyfirvöld í Hafnarfirði, hafi veitt henni leyfi til þessara starfa og stutt tsunami fólkið með þeim hætti.

Elín kann margar sögur af ferðum sínum. Hún hitti til að mynda fiskimenn og unga drengi á svæði Tamíl trígranna. ?Þeir röngluðu um eyðilögð svæðin, þunglyndir og sorgbitnir. Að eigin sögn sögðust þeir vera vonlitlir um framtíðina, engir bátar, engin veiðarfæri, ekki einu sinni hnífar. Þeir báru vanlíðanina utan á sér og sögðu mér frá reynslu sinni. Ungir drengir með brostin augu sögðust hafa klifrað upp í tré og bjargað sér þannig undan tsunami. Þeir sem týndu lífi voru þó aðallega lítil börn og eldri konur en einnig þeir sem voru að reyna að bjarga börnunum,? segir Elín og að eftir langt samtal hafi einn þeirra klifrað upp í tré og náð í kókoshnetur handa henni, bílstjóranum, félagsráðgjafa, sem er starfsmaður deildarinnar, og túlkinum, sem er einnig starfsmaður deildarinnar. ?Við drukkum síðan yndislega hressandi kókoshnetusafann með miklu þakklæti. Þessir menn sem misst höfðu næstum allt sýndu gestrisni sína á þennan hátt og það með bros á vör. Þetta snerti mig virkilega og greinilega líka karlana sem með mér voru og töluðu þeir um það eftir á,? segir Elín að lokum. Þótt þeir hafi misst aleignuna, fjölskylduna gátu þeir ekki hugsað sér annað en gleðja gestina.
 

 

Irawati kíkir út úr rifna tjaldinu sínu.
Ljósmynd: Þorkell Þorkelsson.

„Við höfum öll glímt við það sama, svo ég þarf ekki að gráta," sagði maður sem missti fjölskylduna í tsunami flóðbylgjunni í Indlandshafi á annan dag jóla árið 2004. Stúlka sagði að flóðbylgjan hefði komið eins og munnur sem gleypti fólkið og tók það með sér út á haf.