Rauði krossinn kemur með ný tjöld til að veita fórnarlömbum flóðbylgnanna skjól fyrir monsúnrigningum

Maude Froberg

23. nóv. 2005

Þorkell Þorkelsson ljósmyndari var á ferð í Aceh héraði í Indónesíu í september sl. Með honum var Maude Fronberg upplýsingafulltrúi Alþjóða Rauða krossins í SA-Asíu. Þorkell tók meðfylgjandi myndir og Maude er höfundur textans.

 Hitabeltisrigningarnar eru yfirleitt eins. Fyrst tekur maður varla eftir þeim en allt í einu verður gríðarlegt úrhelli. Þegar regnið lemur tjaldið í búðunum í Tanjung Harapan í Meulaboh í vesturhluta Súmötru vaknar hin 25 ára Irawati við hljóð sem minna helst á þyrl í trommum. Þar sem henni tekst ekki að sofna aftur horfir hún út í myrkrið og ótti grípur um sig innra með henni.

Hún lifði flóðbylgjurnar af og sú reynsla hefur sett mark sitt á hana, en sem betur fer eru eiginmaður hennar og tvö börn heil á húfi. Stundum finnur hún til mikils þakklætis þar sem líf margra í kringum hana er í rúst. Það þarf hins vegar enn að hafa fyrir því að draga fram lífið og þess vegna getur Irawati ekki hætt að hafa áhyggjur.

Auðvitað óskar hún þess heitt að fá nýtt hús rétt eins og aðrir í búðunum, sem flestir eru sjómenn. Hún gerir sér hins vegar illilega grein fyrir því að það sem hún þarf helst að hugsa um núna er tjaldið sem fjölskyldan býr nú í tímabundið. Það er orðið ansi lúið, komin lítil göt á það og saumarnir farnir að rifna. Hvað verður um þau þegar rigningartíminn hefst og það rignir dögum saman?

Seinna þennan sama dag stendur M6 bíll nokkra kílómetra í burtu og bíður þess að vera hlaðinn. Í þetta sinn eru þrír sjálfboðaliðar að bera í bílinn 50 fjölskyldutjöld úr vöruhúsi. Þegar Saifuddin, einn af sjálfboðaliðunum, stekkur upp í bílinn fullvissar hann sig um að hann sé með öll skráningarkort. Þegar haldið er af stað á hægri ferð í gegnum fjölmennar göturnar í Meulaboh lítur þetta út fyrir að vera venjuleg ökuferð. En svo er ekki.
Þetta er mikið kapphlaup við tímann því tími monsúnrigninganna er að nálgast og stjórnvöld og Alþjóða Rauði krossinn eru að skipta um tjöld þar sem þörfin er til staðar, auk þess að dreifa matvælum og öðrum hjálpargögnum. Og þörfin er til staðar mjög víða.

Níu mánuðum eftir flóðbylgjurnar búa um 26 þúsund fórnarlömb í Aceh Barat og nágrenni enn í tjöldum og skýlum. ?Ástandið er mjög alvarlegt og þetta fólk hefur rétt á því að fá aðstoð. Þess vegna fylgjumst við vel með lífsskilyrðum fólksins,? segir Nasri Zakaría, sem sér um neyðaraðstoð fyrir Rauða krossinn, við stjórnanda einna búðanna meðan hann bíður eftir bílnum.

Sex konur fylgjast náið með hreyfingum þeirra úr nálægu tjaldi. Þær eru á ólíkum aldri og eru ólíkar í útliti en eiga þó eitt sameiginlegt. Þær eru allar ekkjur og eru að reyna að halda lífinu áfram eins vel og þær geta. Omallah Keumala er t.d. farin að búa til línur til fiskveiða. Hún tekur varlega upp bláa fiskibeitu, hnýtir hana við endana á plastlínu og heldur endunum svo yfir logandi kerti til að þeir festist saman. Síðan skoðar hún endana gaumgæfilega og setur svo í haug af slíkum veiðarfærum sem hún hyggst selja á markaðnum. Þetta mun færa henni um 20 þúsund rúpíur á viku, sem er um 130 íslenskar krónur. ?Þetta er eina öryggið sem ég bý við,? segir hún og nær í aðra línu.

Á meðan þeir fullorðnu reyna að ná tökum á lífi sínu þrátt fyrir ótrygga framtíð láta börnin sig dreyma. ?Ég vil verða kvikmyndastjarna,? segir hin átta ára Dek Joul og brosir feimnislega, en feimnin er ekki mikið meiri en það. Brátt tekur hún forystuna og þykist vera prinsessa með þjóna og er frammistaðan þokkafull á þessum rykuga vegi í fjölmennum búðunum.

Ramlah, 60 ára gömul kona, gengur varlega í gegnum mannfjöldann. Hana verkjar enn eftir sárin sem hún fékk þegar hún var dregin upp úr vatninu á þessum örlagaríka degi. Hún missti alla fjölskyldu sína í flóðunum. Nú er Ramlah á leið á staðinn þar sem tjöldunum er dreift, en nýtt tjald er lítil huggun fyrir hana þar sem dagarnir líða í sorg og einmannaleika. Hún orðar þetta á opinskáan hátt. ?Ég á ekkert. Ég er sátt við allt sem ég fæ. Þú ræður alveg hvað þú lætur mig hafa.? Þegar tjaldi hennar er komið upp gefur það henni kannski ástæðu til að brosa til nágranna sinna, sem einnig eru komnir með nýtt tjald. Þar á meðal Irawati og fjölskylda hennar.