Rauði krossinn ásamt öðrum hjálparstofnunum bregst við neyðinni í Banda Aceh

Virgil Grandfield

27. sep. 2005

Neyðarskýli sem þessi hafa verið reist á flóðasvæðunum. Þau eru eingöngu notuð tímabundið meðan byggð eru ný hús.

Þar sem hætta vofir yfir vegna monsúnrigninga og þúsundir fórnarlamba flóðbylgnanna búa í tjöldum sem eru að syngja sitt síðasta mun Alþjóða Rauði krossinn hleypa af stokkunum stóru verkefni í samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) í þeim tilgangi að veita aðstoð.

?Heimurinn treystir Rauða krossinum, Sameinuðu þjóðunum og öðrum hjálparstofnunum fyrir heilsu og velferð fórnarlambanna,? segir Peter Cameron yfirmaður skrifstofu Alþjóða Rauða krossins í Indónesíu. ?Okkur hefur verið falið að skapa eins mannúðleg lífsskilyrði og hægt er á meðan við hjálpum fólki að endurbyggja heimili sín og samfélag.?

Alþjóða Rauði krossinn hefur þegar hafist handa með því að flytja inn í landið 27 þúsund vönduð og stór fjölskyldutjöld og byggja að minnsta kosti 15 þúsund sterk neyðarskýli fyrir meira en 60 þúsund manns. Þetta tímabundna húsaskjól á að gera líf fórnarlamba flóðbylgnanna þægilegra meðan leitað verður að landrými fyrir varanlega endurbyggingu Aceh héraðs.

Það sem seinkað hefur enduruppbyggingu í héraðinu eru annars vegar flækjur vegna eignarréttar landsvæða og hins vegar skortur á byggingarefni. Rauði krossinn gerði sér grein fyrir þörfinni á neyðarskýlum í júlí og hófu þá að virkja SÞ og aðrar hjálparstofnanir til að ná tökum á stöðunni.

Rauði krossinn vinnur einnig að því ásamt SÞ og öðrum hjálparstofnunum að koma upplýsingum um áætlanir sínar á framfæri við fórnarlömbin. Sérstaklega þarf að fullvissa þau um að þessi tímabundnu skýli dragi ekki úr rétti þeirra á varanlegu húsnæði eða hversu fljótt þau fá það. Þetta verður reynt að gera bæði með dreifiritum og með aðstoð útvarpsins. Rauði krossinn vinnur einnig að því með yfirvöldum að tryggja að þær fjölskyldur sem um sárast eiga að binda komist fyrst í neyðarskýli.

Rauði krossinn, í samvinnu við samstarfsaðila, munu einnig bæta vatns- og hreinlætisaðstöðu hjá fólki sem misst hefur heimili sín og dvelur í sérstökum búðum á vegum yfirvalda. Auk þess verður haldið áfram að veita heilbrigðisaðstoð.

?Rauði krossinn hefur tekið frumkvæði í þessum efnum, ekki aðeins til að uppfylla mannúðarmarkmið sín heldur einnig til að gera landsfélögum um allan heim kleift, ásamt öðrum hjálparstofnunum, að halda áfram endurbyggingu til lengri tíma til að gera Aceh hérað betra en það hefur nokkru sinni verið,? segir Cameron.
Fulltrúar Rauða krossins og SÞ munu hittast í New York á næstu dögum til að fullklára áætlanir um neyðarskýli handa fórnarlömbunum.