Sendifulltrúi Alþjóðasamtaka Rauða krossins særðist í Aceh

23. jún. 2005

Starfsmaður Alþjóða Rauða krossins og Rauða hálfmánans varð fyrir skoti í gær, 22. júní, þegar hann var á ferð á vegi skammt frá Lamno á vesturströnd Aceh-héraðs á Súmötru.

Atburður þessi átti sér stað eftir kl. 8 að kvöldi. Eva Young, hjálparstarfsmaður frá Hong Kong, var í fjórhjóladrifnum bíl sem var merktur Rauða krossinum. Hún særðist en hermaður sem var í fylgd með henni slapp ómeiddur. Eva var lögð inn á sjúkrahús á staðnum sem rekið er af samtökunum Læknar án landamæra. Hún særðist á andliti og hálsi en er með meðvitund og ástand hennar er stöðugt. Hún var flutt til Medan í morgun og var flutt þaðan til Singapore.

Atburðarrásin er óljós á þessari stundu. Þetta minnir okkur þó á að Aceh-héraðið er enn vettvangur hernaðarátaka þar sem vopn eru notuð. Hjálparstarf vegna flóðbylgnanna í desember heldur áfram en verið er að fara yfir öryggisreglur. 

Rauði krossinn lýsir yfir miklum áhyggjum vegna þessa atburðar. Merki Rauða krossins og Rauða hálfmánans eru tákn fyrir verndun lækna- og hjálparliðs og á aðstöðu þeirra. Árásir á fólk eða hluti sem bera þetta merki eru bannaðar samkvæmt alþjóðlegum mannúðarlögum. Nauðsynlegt er að virða og vernda starfsmenn og aðstöðu Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Sem hlutlaus og sjálfstæð samtök sem hafa það að markmiði að vernda og aðstoða fórnarlömb leitast Rauði krossinn við að bregðast við þörfum þeirra sem orðið hafa fyrir tjóni vegna flóðbylgnanna og af átökunum milli Aceh og Norður-Súmötru.

Þrír íslenskir sendifulltrúar eru nú við störf á Súmötru. Kristín Ólafsdóttir verkefnisstjóri Rauða kross Íslands hafði samband við þá í dag og fékk staðfest að þeim líður vel eftir aðstæðum og telja sig ekki vera í hættu.

Hugur okkar er hjá Evu Young og fjölskyldu hennar á þessum erfiðu tímum.