Íslenskur sálfræðingur tekur þátt í að veita íbúum Sri Lanka sálfræðiaðstoð

Tekið af vef TamilNet

2. jún. 2005

 

Sjálfboðaliðar Kurchavei deildarinnar taka við hjólum frá Elínu Jónasdóttur og Dr. Gnangunalan formanni Sri Lanka Rauða krossins.

Rauði kross Danmerkur hefur verið virkur í að veita sálfræðilega og félagslega aðstoð til fólks í Trincomalee-héraðinu í Sri Lanka sem á um sárt að binda eftir flóðin í Asíu í desember.

Aðstoðin felst í að hjálpa fólkinu að jafna sig og gera því kleift að sjá fyrir sér sjálft. Danirnir sendu  með fjárhagslegri aðstoð mannréttindasamtakanna ECHO hóp sálfræðinga til Sri Lanka í janúar með það að markmiði að draga úr sálfræðilegum áhrifum þessara hörmunga.

Rauði kross Dana hefur ráðið 47 sjálfboðaliða frá Rauða krossi Sri Lanka til Trincomalee og þjálfað þá til þátttöku í þessari aðstoð. Slíka sjálfboðaliða er nú að finna í 18 miðstöðvum í fjórum héruðum í landinu.

Elín Jónasdóttir er einn sálfræðinganna og hefur hún aðsetur í Trincomalee. Hún valdi hvar miðstöðvarnar ættu að vera til húsa, með aðstoð Rauða kross Sri Lanka. Sálfræðingarnir einbeita sér aðallega að því að veita börnunum stuðning til að ná sér eftir áfallið sem flóðbylgjurnar ollu.

Mikið hefur þegar áunnist í félagslegum stuðningi og getur fólk sem varð fyrir tjóni vegna hörmunganna nú hlustað á útvarp og lesið dagblöð og tímarit. Þá er Rauði kross Dana í samstarfi við yfirvöld menntamála í Trincomalee um að veita aðstoð til barnaskólanna.

Einnig er stutt við bakið á sjálfboðaliðunum með þjálfun. Þeim hefur verið útveguð  reiðhjól en margir töpuðu hjólunum sínum í flóðunum. Hjólin voru afhent við hátíðlega athöfn á skrifstofu Sri Lanka Rauða krossins þar sem ellefu sjálfboðaliðar tóku við hjólum en síðan hafa 29 sjálfboðaliðar fengið hjól.