Ástandið fer dagversnandi í Sýrlandi

6. sep. 2013

Sýrlendingar þurfa daglega að takast á við dauða og eyðileggingarmátt borgarastyrjaldar sem hefur nú varað í 2 og 1/2 ár. Sjö milljónir manna hafa hrakist frá heimilum sínum.  Fjórar milljónir eru vegalausar innan Sýrlands. Tvær milljónir manna hafa flúið til nágrannalandanna. Um 100.000 manns hafa látið lífið og Rauði hálfmáninn hefur misst 22 úr sínum röðum við skyldustörf.

Í Sýrlandi ríkir nú mesta neyð sem hjálparstofnanir hafa þurft að takast á við á undanförnum árum. Starfsmenn og sjálfboðaliðar Rauða hálfmánans í Sýrlandi horfast í augu við ólýsanlega hættulegar aðstæður á hverjum degi þegar þeir mæta til vinnu. Þeir veita lífsnauðsynlega aðstoð til 2 milljóna manna í hverjum mánuði, þrátt fyrir að óttast um líf sitt við hjálparstörfin.

Rauði krossinn óttast þær afleiðingarnar sem harðnandi og langvinn átök munu hafa á íbúa landsins og nágrannaríkja. Sívaxandi straumur flóttamanna frá Sýrlandi kallar á enn frekari aðstoð, og sjálfboðaliðar og starfsmenn Rauða krossins vilja með þessu vekja athygli á þeim hræðilegu aðstæðum sem ríkja á svæðinu. Gífurleg þörf er á aðstoð og Rauði krossinn á Íslandi verður að leggja þar sitt að mörkum.