Frumsýning á Díönu prinsessu til styrktar Sýrlandssöfnun Rauða krossins

17. sep. 2013

Föstudaginn 20. september næstkomandi verður kvikmyndin um Díönu prinsessu frumsýnd í kvikmyndahúsum borgarinnar. Um heimsfrumsýningu er að ræða.

Myndform, sýningaraðili myndarinnar, hefur gefið Rauða krossinum í Reykjavík frumsýningu hennar til fjáröflunar fyrir félagið. Þar sem um styrktarsýningu er að ræða er miðaverð 5.000 kr., og rennur féð óskert til Sýrlandssöfnunar Rauða krossins til neyðaraðstoðar fyrir flóttafólk. Stefnt er að því að safna allt að einni milljón króna á frumsýningunni.

Myndin verður sýnd í Laugarásbíói föstudaginn 20. september kl. 17:30.

Díana prinsessa vann alla tíð mikið fyrir Rauða krossinn í Bretlandi og lagði meðal annars krafta sín til alþjóðlegrar herferðar Rauða krossins í baráttunni gegn jarðsprengjum árið 1997. Jón Valfells, þáverandi yfirmaður upplýsingadeildar Alþjóða Rauða krossins í Genf, fylgdi Díönu prinsessu í heimsfrægri ferð hennar um Angóla til styrktar þessu málefni.  Um er að ræða eina bestu herferð Alþjóða Rauða krossins, og segir Jón engan vafa leika á að Díana hafi átt þar stærstan þátt í hversu vel tókst til.