Harmur og hjálparstarf í Hambantota

Þóri Guðmundsson

25. jan. 2005

Frásögn Þóris eftir ferð til Sri Lanka í janúar 2005.Hér er Kumudini Premathilaka sálfræðingur að störfum í skugganum af stóru tré í Hambantota. Þar starfaði hún frá 27. desember.

Höfnin í Hambantota glampar í sólskininu þegar við komum að. Lygn sjórinn kitlar gula ströndina og tekur á sig fagurbláan lit af heiðum himni. Það er ekki fyrr en við nánari athugun að ljóst verður að hér er ekki allt eins og það á að vera.

Í miðri höfn eru tveir gúmmíbátar og í þeim einn kafari sem virðist vera að leita að einhverju. Fólk röltir um í fjöruborðinu. Ungur karlmaður í blárri skyrtu gengur ofan á ónýtum netadræsum. Lítill fiskibátur - tvíbytna úr tré - liggur á hliðinni uppi við veg og ef vel er að gáð má sjá nokkra báta til viðbótar uppi á landi.

„Það voru fimmtán hundruð bátar hér í höfninni þegar flóðbylgjan reið yfir," segir Samarakoon bílstjóri, sem hefur verið hér áður. „Þennan dag var markaðsdagur og þess vegna var allt fullt af fólki niðri við höfn."

Flóðbylgjan sem reis skyndilega úr hafi þann 26. desember 2004 varð 4.800 mönnum að bana í Hambantota, sem er eitt fátækasta hérað Sri Lanka. Alls er talið að rúmlega 30.000 manns hafi látist á Sri Lanka og á fimmta þúsund manns er enn saknað. Hambantota bær, sem ber nafn af héraðinu, varð einna verst úti. Flóðbylgjan skall á litlu sjávarplássinu og reif með sér hundruð manna sem hún kastaði af sér í lóni innar í landi. Þar eins og annars staðar urðu fátækir fiskimenn fyrir mestu tjóni.

„Sjálfboðaliðar okkar voru farnir að bjarga fólki tíu mínútum eftir flóðið," segir K.H. Premathilaka, formaður Rauða kross deildarinnar í Hambantota. „Þeir björguðu 96 mönnum upp úr lóninu."

Fólk gengur um í lóninu og reynir að hafa upp á eigum sínum. Lík eru enn að finnast.

Um fjögur þúsund sjálfboðaliðar Rauða krossins vinna við hjálparstörf á flóðasvæðunum. Margir hafa unnið hvern dag frá fyrsta degi. Þeir beita skyndihjálp á skaðasvæðunum, hreinsa brunna og hlúa að fólki í fjöldahjálparstöðvum.

Einn sjálfboðaliðanna er Dilip Kumare. Hann er búinn að dreifa blöðum og litum til barna í fjöldahálparstöð í Samodagamaþorpi í Hambantota héraði. Börnin sitja á steyptum palli, teikna og lita. Þau sýna hvert öðru myndirnar. Frá pallinum heyrast skríkjur og skvaldur. Fátt bendir til að hér séu börn sem hafa orðið að flýja heimili sín og sum misst foreldra eða nána ættingja.

„Þetta er foss," segir 14 ára strákur og sýnir mér mynd sem hann var að lita. Myndirnar sem krakkarnir eru að gera virðast allar eiga það sameiginlegt að í þeim má sjá bæði vatn og hús.

Fyrir utan pallinn situr Kumudini Premathilaka á stól í skugganum af stóru tré. Hún er sálfræðingur og hefur verið að veita sálrænan stuðning á hamfarasvæðunum síðan 27. desember.

„Ég er búin að tala við um þrjú þúsund manns á þessum tíma," segir hún. „Uppundir tíu prósent af þeim sem ég hef talað við eru haldin áfallastreitu, sem svipar til þess sem hermenn upplifa stundum eftir að hafa lent í sprengjuregni í skotgröfum. Börnin eru hrædd við sjóinn og þau óttast að verða viðskila við foreldra sína."

Premathilaka er ein af 500 sjálfboðaliðum Rauða krossins í Hambantota héraði. Hún spjallar einslega við fólk, sem bíður þolinmótt eftir að ná tali af henni. Á vinstri hönd bíða um fjörtíu manns í röð eftir litlum veggi. Flestir sitja. Á hægri hönd má sjá sjö börn á ýmsum aldri sem standa hljóð og fylgjast með því sem fram fer. „Þau eru öll munaðarlaus," segir Premathilaka lágum rómi. „Þau eiga erfitt."

Hambantota er bara eitt af mörgum héruðum sem fóru illa út úr flóðbylgjunni miklu, sem skildi eftir sig um 800 kílómetra slóð eyðileggingar meðfram stórum hluta af strandlengju Sri Lanka. Vestan við Hambantota, í kringum bæinn Galle, má meðal annars sjá lest sem þúsundir manna leituðu skjóls í þegar vatnið byrjaði að flæða upp á strönd. Stóra bylgjan hreif lestina með sér og kastaði henni 100 metra inn í landið. Nú er búið að flytja lestarvagnana aftur upp á teina. Allt í kring er fatnaður farþeganna, skór, buxur og bolir. Einar litlar kafarablöðkur á fimm til sex ára barn liggja hálfniðurgrafnar í leðjuna.

Hjálparstarf er í fullum gangi þó að það hafi ekki náð að fullu til allra staða. Við ökum framhjá tankbíl sem Rauði krossinn á Sri Lanka hefur sent niður með vesturströnd landsins. Sumt fólkið sem kemur að safna vatni í fötur og krukkur hefur misst allt sitt. Þeir sem áttu heima nálægt ströndinni voru heppnir að sleppa lifandi, en húsið og allt sem í því var skolaðist í flestum tilvikum burt. Eyðileggingin er svo ótrúleg að erfitt er að ímynda sér að einhvern tíma hafi verið byggð þar sem nú er leðja, múrsteinsbrot og fataafgangar.

Önnur hlið hjálparstarfsins er leitin að þeim sem lifðu og dóu. Um 500.000 manns flúðu heimili sín og eru nú í fjöldahjálparstöðvum (oftast í skólum), tjaldbúðum eða hjá ættingjum og vinum. Allir eiga þeir ástvini sem í mörgum tilvikum hafa enn ekki fengið fréttir af þeim. Í Ampara er Alþjóða Rauði krossinn með nokkur lið manna sem fara á milli flóttahópanna í því skyni að endursameina fjölskyldur.

Sara Blandford starfar fyrir bandaríska Rauða krossinn en er í tímabundnu verkefni á Sri Lanka vegna flóðanna. Hún er yfir sig hrifin að hitta Íslendinga: nánasta samstarfskona hennar heima í Washington er Svafa Hildur Ásgeirsdóttir, sem var framkvæmdastjóri Reykjavíkurdeildar Rauða krossins fram á síðasta ár, þegar hún fór til vinnu hjá bandaríska Rauða krossinum. Daginn áður var Sara að leita að sex fjölskyldum fyrir fanga í fangelsum uppreisnarmanna tamíla á norðurhluta Sri Lanka. Það tók allan daginn en tókst. Við förum með henni í fjöldahjálparstöð í fataverksmiðju nálægt bænum Akaripatu þar sem 93 fjölskyldur, 390 einstaklingar, hafast við. Einungis tveir biðja um aðstoð við að finna fjölskylduvini í þetta sinn.

„Algengustu beiðnirnar varða fjölskyldumeðlimi sem búa erlendis," segir Sara. „Margir eiga ættingja í Saudi Arabíu eða annars staðar á Arabíuskaganum. Við erum með gervihnattasíma og fólk fær að hringja í ættingja sína. Þegar svarað er á hinum endanum safnast allir saman við símann. Það er mjög tilfinningarík stund."

Fjöldahjálparstöðin í fataverksmiðjunni í Akaripatu er ein 556 slíkra miðstöðva fyrir þá sem flóðbylgjan ógurlega gerði heimilislausa. Nú liggur fyrir að koma fólkinu fyrir, að minnsta kosti til bráðabirgða, svo hægt sé að rýma húsin þar sem það er núna. Í flestum tilvikum eru það skólar og þeir þurfa að hefja starfsemi á ný. Enn eru stjórnvöld að ráða ráðum sínum um framtíðardvalarstað alls þessa fólks. Þau vilja koma í veg fyrir að hús rísi á ný við ströndina, en langflestir sem misstu heimili sín voru fátækir fiskimenn sem vilja búa sem næst sjónum.

Því er ljóst að risavaxin verkefni eru frammundan á Sri Lanka fyrir stjórnvöld og hjálparstofnanir og, ekki síst, fyrir fólkið sjálft.