Rauði krossinn reisir flóttamannaskýli til styrktar Sýrlandi á Menningarnótt

23. ágú. 2013

Rauði krossinn reisir flóttamannaskýli í Fógetagarðinum í Reykjavík á morgun til að vekja fólk til umhugsunar um fórnarlömb átakanna í Sýrlandi. Hjálparstarf Rauða krossins í Sýrlandi verður kynnt og flóttamenn þaðan munu einnig verða á staðnum og lýsa aðstæðum þar.

Atburðir liðinna daga og grunur um notkun efnavopna kalla á enn frekara átak af hálfu Rauða krossins að vekja athygli á þeim hræðilegu aðstæðum sem þar ríkja og hjálparstarfinu sem er með því viðamesta sem Alþjóðahreyfing Rauða krossins og Rauða hálfmánans hefur tekist á við um árabil. Gífurleg þörf er á aðstoð og Rauði krossinn á Íslandi verður að leggja þar sitt að mörkum.

Rauði krossinn á Íslandi hefur á liðnu ári stutt hjálparstarfið með margvíslegum hætti:

  • Framlag Fatímusjóðsins var notað til að styðja hjálparstarf Alþjóða Rauða krossins í Sýrlandi (5 milljónir króna)
  • Framlag utanríkisráðuneytisins og mótframlag Rauða krossins á Íslandi styður aðgerðir hreyfingarinnar til hjálpar flóttamönnum frá Sýrlandi (12,3 milljónir króna)
  • Með sýrlenska Rauða hálfmánanum og norska og þýska Rauða krossinum útvegum við vatn og hreinlætisaðstöðu fyrir sýrlenskar fjölskyldur sem hafa orðið að flýja heimili sín en eru enn innan Sýrlands (um 14 mkr)
  • Með líbanska og norska Rauða krossinum sendum við heilbrigðisteymi til að veita flóttafólki frá Sýrlandi læknishjálp á þremur stöðum í Líbanon (um 26 mkr)


Okkar framlag skiptir því heilmiklu máli - og getur linað þjáningar margra.