Uppbyggingarstarfið framundan

Nínu Helgadóttur

18. jan. 2005

 

Á myndinni er vatnshreinsunarsveit Þýska Rauða krossins í Pottuvil að störfum.

Fyrir tilstuðlan almennings, fyrirtækja, sveitar- og bæjarstjórna um allt land getur Rauði kross Íslands lagt verulegan skerf til uppbyggingarstarfsins í löndunum við Bengal flóa eftir flóðbylgjurnar miklu. Ekki verður nógsamlega þakkað fyrir framlag allra þeirra sem lögðu lóð sitt á vogarskálarnar.

Matsteymi sem mun leggja drög að langtímauppbyggingarstarfi Rauða kross hreyfingarinnar er nú komið á flóðasvæðin. Unnið er að áætlunum til fimm ára til að byrja með varðandi vatnsöflun og hreinlætismál, heilsugæslu, samfélagsþróun, neyðaraðstoð og uppbyggingu neyðarvarna. Ávallt er byggt á þekkingu og reynslu Rauða kross félaganna og reynt að auka enn á færni þeirra til að bregðast við áföllum og vinna úr afleiðingum þeirra. Því miður fer tala látinna enn vaxandi og er nú komin yfir 162,000 manns.

Alþjóða Rauði krossinn heldur áfram neyðarhjálp sinni í samstarfi við Rauða kross félögin á svæðinu og hefur nú dreift matvælum og hjálpargögnum til tugþúsunda fjölskyldna. Fjórtán neyðaraðstoðarteymi eru enn að störfum, m.a. við að hreinsa vatn, veita heilsugæslu og sinna flutningum hjálpargagna en þörfin er mikil fyrir moskítónet, eldhúsáhöld, plastyfirbreiðslur, vatnsdúnka, tjöld, hreinlætispakka og vatnshreinsitöflur.

Dreifing hjálpargagna til íbúa á svæðum sem voru einangruð er nú að komast á fullt skrið og skjólstæðingum fjölgar með hverri klukkustund. Alls er stefnt að því að aðstoða 2 milljónir í 6-8 mánuði.

Nú er unnið af kappi að því að skipuleggja áfallahjálp og í flestum tilfellum eru sjálfboðaliðar félaganna þjálfaðir svo þeir geti aftur sinnt fórnarlömbum flóðanna. Þúsundir sjálfboðaliða vinna enn myrkranna á milli við neyðaraðstoð og aðhlynningu fólks og skiptir framlag þeirra mestu máli í hversu vel gengur að koma aðstoðinni til skila. T.a.m. vinna um 3000 sjálfboðaliðar enn við dreifingu hjálpargagna og aðhlynningu fórnarlamba á Sri Lanka.

Fjöldi erlendra sendifulltrúa tekur þátt í samhæfingu á neyðaraðstoð og aðhlynningu fólks og þeirrar aðstoðar sem berst erlendis frá, m.a. frá Rauða krossi Íslands. Rauði kross Íslands hefur þegar sent sex sendifulltrúa á vettvang og á næstu dögum fara þrír hjúkrunarfræðingar til viðbótar til Indónesíu og Sri Lanka. Þeir sendifulltrúar sem fyrir eru starfa við dreifingu hjálpargagna, skipulagningu áfallaaðstoðar, uppbyggingu landsfélagsins, upplýsingaöflun og skýrsluskrif (sjá lista yfir sendifulltrúa sem eru á flóðasvæðunum).

Alls eru 90 alþjóðlegir sendifulltrúar komnir til Sri Lanka til aðstoðar landsfélaginu þar. Teymi frá Ameríska Rauði krossinn er komið til Jakarta til að aðstoða Indónesíska Rauða krossinn við dreifingu hjálpargagna. Sænsk og austurrísk Rauða kross teymi munu koma til Calang í Indónesíu í vikunni til að hreinsa drykkjarvatn og stuðla að bættu hreinlæti. Vatnsteymi Spænska Rauða krossins hreinsar daglega tvær milljónir lítra af vatni í Meulaboh í Indónesíu.