110 milljónir króna söfnuðust

Sólveigu Hildi Björnsdóttur

16. jan. 2005

 

Þessar stúlkur voru duglegar að safna í baukana í Kringlunni.

Eitt hundrað og tíu milljónir króna höfðu safnast í landssöfnuninni ?Neyðarhjálp úr norðri" þegar beinni útsendingu Stöðvar 2, Sjónvarpsins og Skjás eins lauk fyrir stundu.

Margir lögðu hönd á plóginn við söfnunina í dag. Sjálfboðaliðar söfnuðu fé í þremur verslunarmiðstöðvum, þ.e. Smáralind, Kringlunni og Glerártorgi á Akureyri. Tombólubörn tóku virkan þátt í söfnuninni og gengu um verslunarmiðstöðvarnar með söfnunarbauka.

Fjöldi listamanna lagði söfnuninni lið bæði í dag og í sjónvarpsútsendingunni í kvöld. Einnig stóðu fjöldi útvarpsstöðva og dagblaða að söfnuninni auk fyrirtækja.

?Landssöfnunin er sú viðamesta sem fram hefur farið hér á landi,? segir Elín Þorsteinsdóttir verkefnisstjóri söfnunarinnar. ?Söfnunarfénu verður varið til neyðaraðstoðar og uppbyggingar á næstu árum sem fimm mannúðarsamtök hafa umsjón með; Barnaheill, Hjálparstarf kirkjunnar, Rauði kross Íslands, SOS barnaþorpin og UNICEF - Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna,? segir Elín.
Söfnunarfénu er ætlað að treysta framtíð barna sem misst hafa foreldra sína, hjálpa fjölskyldum sem misstu allt sitt til að koma undir sig fótum á ný og til að veita læknisaðstoð og heilsugæslu og koma í veg fyrir frekari skaða.

Fjöldi manns gaf fé í gegnum söfnunarsímann en í kvöld sat þjóðþekkt fólk við símann og tók við fjármunum. Einnig voru haldin uppboð í beinni sjónvarpsútsendingu á ýmiskonar munum. Þar má nefna teinótt jakkaföt Björgólfs Guðmundssonar sem seldust á 10 milljónir króna og fótboltatreyju Eiðs Smára Guðjónssonar sem fengust rúmlega 300 þúsund krónur fyrir.

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson sagði við lok söfnunarinnar í kvöld að ánægjulegt væri að sjá að á stórum stundum stæði íslenska þjóðin saman sem ein stór fjölskylda.

Söfnunin hófst á þriðjudag s.l. og náði hámarki í kvöld en þessi beina útsending sjónvarpsstöðvanna var lokahnykkur landssöfnunarinnar

Hér er hægt að sjá myndir frá söfnunardeginum: