Það þarf tíma, hjarta og hugarfar til enduruppbyggingar

Robin Bovey í Banda Aceh, Indónesíu

14. jan. 2005

Robin Bovey er sendifulltrúi fyrir Rauða kross Íslands í Indónesíu. Hann stýrir dreifingu hjálpargagna fyrir Alþjóðaráð Rauða krossins.


Já þetta er í alvöru eins ótrúlegt og það lítur út fyrir í sjónvarpi. Borgin Banda Aceh, þar sem ég starfa fyrir Alþjóðaráð Rauða krossins, lítur nokkuð eðlilega út þangað til maður keyrir nær sjónum og þá bæði sér maður og finnur lyktina af því sem hefur gerst mjög fljótlega. Ég hélt að ég væri vel undirbúinn fyrir þetta þegar ég keyrði inn í borgina á leiðinni frá flugvellinum, en Nina hafði sagt mér að hér hefðu fram að þessu verið grafnir um sex þúsund manns. Ég sá gríðarlega leðju og þungavinnuvélar að störfum í rigningunni. Nokkrum stórum vörubílum var lagt við hlið vegarins og þar voru verkamenn, sem voru útataðir í leðju, að henda líkpokum í sífellt stærri haug af pokum af mismunandi stærðum. Verkamennirnir virtust vera þreyttir og ónæmir fyrir því að þeir voru að höndla með lík. Svæðið var á stærð við fótboltavöll, sem var ekki nóg fyrir sex þúsund lík. ?Ó nei, þeir grafa líkin hvort ofan á öðru, í sex lögum.?

Nina er ung kona frá Indónesíu sem vinnur fyrir alþjóðaráðið í Banda Ace og hún sagði mér að hún væri fegin að vera á lífi. ?Ég missti bróður minn, mágkonu, ömmu og nokkra ættingja ? en ég er á lífi og því hlýt ég að vera ánægð með það,? sagði hún mér. Hún er augljóslega dofin út af öllu sem hér hefur gerst og þannig virðist þetta almennt vera hérna. Allir hafa misst ættingja, en sumir hafa verið heppnari en aðrir. Ungi læknirinn sem stjórnar aðgerðum fyrir alþjóðaráðið var ótrúlega heppinn ? hann, konan hans og börn voru rétt að leggja af stað í brúðkaup og hann beið eftir konu sinni með bílinn í gangi fyrir utan húsið ? þegar fólk fór að hrópa um stóra flóðbylgju kom hann fjölskyldu sinni inn í bílinn, keyrði burt eins hratt og hann gat og rétt slapp við vatnsflauminn.

Strax og keyrt er í þann hluta þorpsins sem stóru bylgjurnar skullu á, er ekki hægt annað en að vera steini lostinn. Stórir viðardrumbar, sem aðeins nokkrum dögum áður voru hús, liggja í haugum úti um allt. Inn á milli eru bílar og steypustyrktarjárn sem hafa bognað á ótrúlegan hátt. Nærri ströndinni, um fjóra kílómetra frá sjó, er allt í rúst eins og að stór jarðýta hafi keyrt yfir svæðið. Nánast ekkert stendur uppi, hvorki tré né byggingar. Þetta er ótrúleg sjón og ég hef enga löngun til að sjá hana aftur.

Þangað til flóðbylgjurnar dundu yfir fengu flest erlend samtök ekki aðgang að svæðinu þar sem Aceh-héraðið í Súmötru er hluti af Indónesíu sem er undir herstjórn vegna uppreisnarátaka. Þá er verið að tala um önnur samtök en Alþjóðaráð Rauða krossins sem var með skrifstofu með tveimur reyndum starfsmönnum. Eftir flóðbylgjurnar var ráðið því í mjög góðri stöðu til að bregðast hratt við. Sem betur fer voru starfsmennirnir á einni eyjunni og í öruggri fjarlægð frá ströndinni. Innan nokkurra klukkustunda hafði ráðið skipulagt fyrstu viðbrögð frá Djakarta, höfuðborg Indónesíu, en þangað tekur þrjár klukkustundir að fljúga frá suðurströndinni.

Frá miðjum janúar hefur Alþjóðaráðið dreift matvælum til yfir 30 þúsund manns sem var einmitt það sem þurfti ? snögg viðbrögð. Nú hafa önnur samtök sem sérhæfa sig í aðstoð vegna náttúruhamfara komið á svæðið ? þar á meðal mörg landssamtök frá öllum heimshornum og alþjóðasamtök Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Þó að Alþjóðaráðið muni halda aðstoðinni áfram með dreifingu fjölskyldupakka fyrir 300 þúsund manns mun það einnig horfa lengra fram í tímann þegar mesta neyðin er liðin hjá. Þá verður veitt meiri langtímaaðstoð til að hjálpa fólki sem þarf að koma sér fyrir að nýju ? hvort sem það flytur aftur þangað sem það bjó áður eða fer á nýjan stað.

Það er dapurlegt, en samt óhjákvæmilegt, að þegar fjölmiðlar heimsins byrja að einbeita sér aftur að öðrum heimsviðburðum munu þessar hörmungar hverfa af sjónvarpsskjánum. Sem betur fer hefur hin gríðarlega samúð frá heimsbyggðinni og fjármagnið sem Rauði krossinn hefur fengið til hjálparstarfs þar í för með sér að hægt er að aðstoða fólk hér. Það þarf hins vegar að tryggja að það sem við gerum sé liður í að koma lífi fólksins aftur á réttan kjöl. Ég verð hér til að tryggja að aðstoð alþjóðaráðsins sem nú er á leiðinni komist í hendur þeirra sem þurfa á henni að halda eins fljótt og hægt er. Að því loknu mun ég byrja að áætla fyrir þá mánuði sem eru framundan áður en ég fer aftur til Íslands í mars.

Það er hins vegar deginum ljósara að það mun ekki aðeins taka tíma að endurbyggja hús fólksins, heldur einnig hjarta þess og hugarfar.