Arngrímur lentur á Sri Lanka með 100 tonn af hjálpargögnum

Þóri Guðmudnsson í Colombo

12. jan. 2005

 

Arngrímur Jóhannsson stjórnarformaður Atlanta var við stjórnvölinn á leiðinni til Sri Lanka ásamt Gunnari syni sínum.

Flugvél Atlanta flugfélagsins, hlaðin um 100 tonnum af hjálpargögnum frá Rauða krossinum, lenti á þriðjudagskvöld í Colombo á Sri Lanka eftir flug frá Dubai. Avion Group (eignarhaldsfélag Atlanta), Eimskip, Landsbankinn og Olís sameinuðust um að kosta flugið.

Í vélinni voru 4.000 fjölskyldupakkar af hreinlætisvörum, 50.000 strádýnur, tjöld, reipi og bílar til hjálparstarfsins. Rúmlega 30.000 manns létu lífið í hamfaraflóðinu á Sri Lanka og 332.000 manns hafast nú við í fjöldahjálparstöðvum meðfram ströndinni. 

„Við erum ánægðir að geta með þessu stutt hjálparstarfið á Sri Lanka og vonum að það nýtist Rauða krossinum sem er að vinna mikilvægt starf þar," segir Arngrímur Jóhannsson, stjórnarformaður Atlanta. Arngrímur var sjálfur við stjórnvöl flugvélarinnar ásamt syni sínum Gunnari.

Boeing 747 fragtvél er líkust risastórri vöruskemmu með vængi. Þó að notaðar séu stórtækar lyftur og færibönd þá tekur milli tvo og fjóra tíma að hlaða vélina. 

„Þetta flug kom upp á hárréttum tíma fyrir okkur," segir Phil Jones, sem er yfirmaður birgðastöðva Alþjóða Rauða krossins í Dubai. „Okkur tókst að safna þessum vörum saman á skömmum tíma og það er beðið eftir þessu á Sri Lanka."

Um borð eru strádýnur frá Rauða krossinum í Hong Kong, 300 tjöld, reipi, tveir jeppar og tveir pallbílar og kassar fullir af hreinlætisvörum eins og sápu, tannkremi, salernispappír og öðru slíku. Almennt hreinlæti er grundvallaratriði í baráttunni gegn farsóttum. 

Hlér Guðjónsson sendifulltrúi Rauða kross Íslands á Sri Lanka tók á móti flugvélinni. Hann hefur unnið í stjórnstöð Alþjóða Rauða krossins í Colombo síðan á gamlaársdag.

„Við höfum verið að dreifa hjálpargögnum meðfram ströndinni og ætlum okkur að ná til alls 400.000 manna á næstunni," segir Hlér. 

Stjórnstöð Alþjóða Rauða krossins fyrir hjálparstarfið er á þriðju hæð í húsi Rauða kross Sri Lanka. Þar eru töflur á veggjum sem sýna umfang neyðarinnar á hverjum stað. Á niðurstöðutölunum sést að alls eru 332.737 einstaklingar í fjöldahjálparstöðvum og 109.860 til viðbótar sem flúðu heimili sín en búa hjá ættingjum eða vinum. 

Alls er vitað um 30.721 sem lét lífið og 4.951 sem er saknað. Sjórinn eyðilagði algjörlega 87.676 hús og skemmdi 26.538 til viðbótar. Tölurnar gefa vísbendingu um hversu mikil neyðin er þó að þær geti aldrei gefið nokkra hugmynd um þrekraunir, hetjudáðir og sorgarsögur sem fæstar verða nokkurn tíma sagðar.