Neyðarhjálp úr norðri

11. jan. 2005

Í dag hefst landssöfnun þriggja sjónvarpsstöðva, þriggja verslunarmiðstöðva, níu útvarpsstöðva, þriggja dagblaða, listamanna, fyrirtækja og almennings til hjálpar þeim sem lifðu af hamfarirnar í Asíu. Aldrei fyrr hafa svo margir aðilar á Íslandi tekið höndum saman um neyðarhjálp til útlanda. Söfnunarfénu verður varið til neyðaraðstoðar nú, og uppbyggingar á næstu árum á vegum fimm mannúðarsamtaka; Barnaheilla - Save the Children, Hjálparstarfs kirkjunnar, Rauða kross Íslands, SOS barnaþorpa og UNICEF - Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Frú Vigdís Finnbogadóttir er verndari söfnunarinnar.

Kjörorð söfnunarinnar er Neyðarhjálp úr norðri
Söfnunin hefst í dag, þriðjudaginn 11. janúar og nær hámarki með sameiginlegri beinni útsendingu Sjónvarpsins, Stöðvar 2 og Skjás eins laugardagskvöldið 15. janúar.

 Í þetta fer söfnunarféð:
? Treysta framtíð barna sem misst hafa foreldra sína.
? Hjálpa fjölskyldum sem misstu allt sitt til að koma undir sig fótunum á ný.
? Veita læknisaðstoð og heilsugæslu og koma í veg fyrir frekari skaða.

Hvernig
Landsmönnum gefst kostur á að hringja í söfnunarsíma alla þessa viku. Framlög eru skuldfærð á símreikning handhafa.
Söfnunarsímanúmerin eru:
901 1000 sem gefur 1.000 kr.
901 3000 sem gefur 3.000 kr.
901 5000 sem gefur 5.000 kr.

Á föstudag og laugardag verður skemmtidagskrá í Kringlunni, Smáralind og á Glerártorgi, Akureyri. Hún stendur frá kl. 14-18 á föstudag og 12-18 á laugardag. Þá ganga sjálfboðaliðar um þessa daga og safna í bauka.

Á laugardag munu þekktir einstaklingar í samfélaginu sitja við símann frá kl. 14-21:30 og taka við stærri framlögum. Númerið er 755 5000.

Fyrirtæki eru hvött til að gefa til söfnunarinnar og verður frumlegustu aðferðanna getið að góðu.

Hápunktur verður í 120 mínútna þætti sjónvarpsstöðvanna sem hefst kl. 19:40 á laugardagskvöld.

Landsbankinn er vörsluaðili söfnunarfjár og styrktaraðili söfnunarinnar. Féð fer óskert til neyðarhjálpar og uppbyggingar á hamfarasvæðunum í gegnum Barnaheill - Save the Children, Hjálparstarf kirkjunnar, Rauða kross Íslands, SOS barnaþorp og UNICEF.