Atlanta flýgur með um 100 tonn af hjálpargögnum Rauða krossins til Sri Lanka

Konráð Kristjánsson

11. jan. 2005

Avion Group, Eimskip, Landsbanki Íslands og Olís hafa tekið höndum saman um að kosta flutning á hjálpargögnum fyrir Rauða kross Íslands til Sri Lanka í kvöld. Flugvél Atlanta flýgur með tæplega 100 tonn af hjálpargögnum frá birgðastöð Alþjóða Rauða krossins í Dubai á þriðjudag.

Það er okkur mikil ánægja að geta með þessu móti lagt hjálparstarfinu lið," segir Hafþór Hafsteinsson framkvæmdastjóri Avion Group sem rekur Atlanta.

Arngrímur Jóhannsson stofnandi Atlanta og sonur hans Gunnar verða í flugstjórnarklefa Boeing 747 flugvélarinnar sem flytur farminn. Um er að ræða hjálpargögn Alþjóða Rauða krossins, sem nýtt verða til hjálparstarfsins á Sri Lanka. Þar á meðal eru hreinlætisvörur, tjöld, dýnur og pallbílar. 

?Það sýnir vel hug fólks til neyðarinnar sem nú ríkir í Asíu að fyrirtæki á Íslandi og í Dubaí hafa tekið höndum saman um að gefa þjónustu sína til þess að koma hjálpargögnum áleiðis," segir Sigrún Árnadóttir framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands. 

Þórir Guðmundsson yfirmaður útbreiðslusviðs Rauða kross Íslands fer með Atlanta vélinni til Sri Lanka á þriðjudag og Hlér Guðjónsson sendifulltrúi Rauða kross Íslands, sem nú starfar á vegum Alþjóða Rauða krossins á Sri Lanka, tekur á móti farminum.