Rauði krossinn eykur aðstoð í Aceh á Súmötru

Ian Woolverton í Norður-Súmötru

10. jan. 2005

 

Læknir rannsakar barn í Aceh-héraðinu í Súmötru.

Starf Alþjóðasamtaka Rauða krossins og Rauða hálfmánans á Súmötru er nú mest í kringum bæinn Meulaboh, á vesturströnd héraðsins Aceh. Þar er talið að um 40 þúsund manns hafi farist í flóðunum á annan dag jóla. Samkvæmt upplýsingum Rauða krossins eru skemmdir í Meulaboh gríðarlegar og ná allt að þremur kílómetrum inn í landið. Á ströndinni er eyðileggingin algjör. „Þar er töluverð leðja á svæðinu og mikil eyðilegging á mannvirkjun og vegum," segir Sara Escudero, sem sér um vatns- og hreinlætismál fyrir Rauða krossinn. Hún fór á flóðasvæðin ásamt þremur öðrum sem með henni mynduðu sérstakt teymi sem mat tjónið.
„Hinn mikli kraftur sem fylgdi flóðunum kastaði mörgum bátum upp á land. Hér er mikil rotnunarlykt og þó að hún minnki eftir því sem fleiri lík finnast má enn ætla að hundruð, jafnvel þúsundir líka liggi enn undir leðjunni," bætir hún við. 

Aðgangur að mannúðarsamtökum hefur hingað til verið takmarkaður fyrir íbúa þessa svæðis þar sem engin flugvél er til staðar sem getur flogið á þau svæði sem verst urðu úti, auk þess sem skemmdir á vegum eru miklar og vegalengdir langar. Hins vegar hafa sjálfboðaliðar Rauða kross Indónesíu unnið allan sólarhringinn í Meulaboh síðan flóðið skall á og hafa fyrst og fremst verið að flytja á brott lík og veita skyndihjálp. En þeir 50 sjálfboðaliðar sem eru að vinna á svæðinu eru nú örmagna, bæði andlega og líkamlega, eftir það sem þeir hafa séð.

Þörfin fyrir mannúðaraðstoð í Meulaboh verður gríðarleg og því hafa alþjóðasamtökin dreift sérstökum pökkum frá Rauða krossi Japans, sem meðal annars innihalda sjúkragögn, til um 30 þúsund manna. Þá hefur Rauði kross Spánar sent búnað til að dæla og hreinsa vatn. Einnig er sams konar búnaður frá Rauða krossi Frakklands á staðnum og þetta tvennt veitir allt að 100 þúsund manns á dag aðgang að hreinu drykkjarvatni. Ofan á þetta allt saman eru heilbrigðisstarfsmenn frá Þýskalandi og Danmörku á staðnum.

Rauði kross Indónesíu ætlar að senda tvo fimm tonna vörubíla fulla af hjálpargögnum til þeirra svæða sem urðu verst úti. Þetta er aðeins byrjunin á gríðarlega stóru hjálparstarfi sem alþjóðasamtökin eru að hefja með fulltingi Rauða kross Indónesíu til að veita langþráða mannúðaraðstoð bæði til íbúa Meulaboh og svæða fyrir sunnan bæinn.

„Þar sem aðrar deildir einbeita sér að því að veita íbúum Banda Aceh í norðurhluta landsins aðstoð verðum við að ganga út frá því að mörg þúsund manns séu í mikilli þörf fyrir húsaskjól, hreint drykkjarvatn, mat og lyf um allt Aceh-hérað,? segir Jürgen Wevand sem er yfir hópnum sem meta á ástandið. „Það skiptir öllu máli að við fáum hjálpargögn á vesturströndina, þar á meðal Meulaboh þar sem vitað er að þörfin er gríðarleg. Við munum nota það sem til staðar er hér til að komast á önnur svæði á vesturströndinni og til þess þurfum við að fá aðstoð til þúsunda einstaklinga," segir hann.

Annars staðar vinnur Alþjóðaráðið og Rauði kross Indónesíu að því að samhæfa aðgerðir sínar í norðurhluta eyjarinnar, í nágrenni við Banda Aceh, og einnig á austurströndinni. Alþjóðasamtökin vinna svo náið með báðum aðilum og eru einnig í reglulegu sambandi við yfirvöld í Indónesíu.

Eitt mesa áhyggjuefnið er að tryggja aðgang að hreinu vatni til að draga úr hættu á að sjúkdómar berist með vatninu. Rauði krossinn mun veita um 100 þúsund heimilislausum einstaklingum aðganga að drykkjarvatni. „Það er mikið af bakteríum í vatninu. Oftast þegar við missum marga í einu, sérstaklega börn, er það vegna neyslu mengaðs drykkjarvatns sem orsakar niðurgang og síðan ofþornun líkamans, og í svona tilvikum dregur það fólk til dauða. Það er því forgangsatriði að koma hreinu vatni til eins margra og hægt er eins fljótt og hægt er," segir Wevand.

Vatns- og hreinlætisteymi Rauða kross Spánar, sem í eru sex menn, þar á meðal jarðfræðingur, efnafræðingur og líffræðingur, hefur það hlutverk að finna vatn til að hreinsa og gera þar með hæft til drykkjar. Liðsmenn teymisins telja að þeir geti skipt verulegu máli fyrir þau svæði sem urðu illa úti. Rauði kross Spánar telur að með aðgangi að góðum vatnsbirgðum geti þeir náð um 300 þúsund lítrum af góðu vatni á hverjum degi sem gæti nýst í heilbrigðisþjónustu. Þá sé einnig hægt að ná 500 þúsund lítrum af vatni sem hæft er til neyslu, og það myndi fullnægja vatnsþörf 60 þúsund manna.

„Við getum fengið vatn frá stöðuvötnum, ám eða lækjum, það skiptir ekki máli. Síðan er vatnið sogað í stóran tank þar sem það er hreinsað. Það tekur nokkrar klukkustundir," segir hinn 32 ára Inigo Vila, leiðtogi teymisins. 

„Við munum síðan geyma vatnið og dreifa því til þeirra sem á þurfa að halda með aðstoð félaga okkar í Rauða kross Indónesíu sem hafa hundruð sjálfboðaliða í vinnu á svæðinu."