Neyðaraðstoð Rauða krossins í kapp við tímann

12. nóv. 2013

Rauði krossinn vinnur nú í kapphlaupi við tímann vegna björgunar og neyðaraðstoðar við fórnarlömb fellibylsins Haiyan sem grandaði yfir 10.000 manns á Filippseyjum um helgina.  Alþjóða Rauði krossinn hefur sent frá sér neyðarbeiðni sem hljóðar upp á 11,5 milljarða íslenskra króna til að aðstoða 10 milljón manns.

Rauði krossinn á Íslandi hóf söfnun fyrir Filippseyjar í gær. Fólk er hvatt til að hringja í söfnunarsíma Rauða krossins 904 1500, 904 2500 og 904 5500 og leggja hjálparstarfinu lið. Þá bætist upphæð sem nemur síðustu 4 tölunum við næsta símreikning. Einnig er hægt að borga með kreditkorti eða leggja inn á reikning 0342-26-12, kt. 530269-2649.

Tryggja þarf að hjálp berist sem fyrst. Milljónir manna eru heimilislausar og er forgangur Rauða krossins að útvega fólki skjól, matvæli, vatn og fatnað. Sjálfboðaliðar og starfsmenn Rauða krossins á Filippseyjum hafa unnið á sólarhringsvöktum frá því hamfarirnar gengu yfir og hefur nú borist liðsstyrkur frá systurfélögum Rauða krossins um allan heim.

Rauði krossinn á Íslandi er í viðbragðsstöðu ef óskað verður eftir sendifulltrúum héðan.  Rauði krossinn hefur þekkingu á svæðinu því Sólveig Þorvaldsdóttir verkfræðingur vann við hjálparstarf Rauða krossins á Filippseyjum í lok árs 2006 í kjölfar fellibyls og flóða, og þekkir því vel til aðstæðna.

Filippeyski Rauði krossinn er gríðarlega sterkt landsfélag og býr yfir miklum mannauði og þekkingu við að bregðast við náttúruhamförum. Á síðustu mánuðum hefur Rauði krossinn unnið hjálparstarf vegna flóða og fellibylja og nú síðast vegna jarðskjálfta sem mældist 7,2 á Richter og skók Bohol hérað.  

Hvergi í heiminum hafa eins margar hamfarir orðið í einu landi eins og á Filippseyjum á þessu ári. Hver klukkustund skiptir sköpum í því hjálparstarfi sem Rauði krossinn vinnur nú að, og er fólk eindregið hvatt til að leggja söfnun Rauða krossins lið.