Hjálparstarfið farið að ná til afskekktari byggða á Indónesíu

Þóri Guðmundsson

5. jan. 2005

 

Á meðfylgjandi mynd eru Sigrún Árnadóttir framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands og Bjarni Ármannsson forstjóri Íslandsbanka þegar Bjarni afhenti fjórar milljónir sem söfnuðust á söfnunarreikning Íslandsbankavefsins.

Þúsundir starfsmanna og sjálfboðaliða Rauða krossins á hamfærasvæðunum í Asíu dreifa nú hjálpargögnum á stórum svæðum með flugvélum, bílum og bátum. Smám saman er hjálparstarfið að ná betur til afskekktari svæða á Indónesíu. Tveir sendifulltrúar Rauða kross Íslands fara til Indónesíu í fyrramálið en fyrir eru þrír sendifulltrúar á hamfarasvæðunum, einn á Sri Lanka og tveir í Indónesíu.

„Það er ljóst að þegar fyrstu viðbrögð eru yfirstaðin, og búið að skipuleggja aðhlynningu til næstu vikna og mánuða, þá þarf að fara að hugsa til lengri tíma, jafnvel fimm til tíu ára," segir Sigrún Árnadóttir framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands.

Í Indónesíu eru nú sex sérfræðiteymi frá Alþjóða Rauða krossinum sem sérhæfa sig í að útvega hreint vatn, læknisaðstoð og dreifingu hjálpargagna. Um sex hundruð manns starfa á vegum Rauða krossins að hjálparstarfinu á Súmötru en indónesíski Rauði krossinn er með 20 starfsstöðvar þar. Þegar er búið að dreifa hjálpargögnum til 8.500 manna á Súmötru en á næstu vikum er gert ráð fyrir að ná til 300.000 manna þar með matvæli, fatnað og aðrar nauðsynjavörur. Á næstu dögum mun norski Rauði krossinn koma upp færanlegum spítala á staðnum, sem getur tekið 100 sjúklinga í rúm.

Á Sri Lanka eru átta sérfræðiteymi frá Alþjóða Rauða krossinum og um 3.000 sjálfboðaliðar Rauða krossins þar sinna hjálparstarfi á skaðasvæðunum. Gert er ráð fyrir að á næstu vikum muni Rauði krossinn sinna þörfum 80.000 manna á Sri Lanka, meðal annars með því að dreifa fjölskyldupökkum sem í eru segldúkar, eldhúsáhöld, teppi og fleira.

Með 10 milljóna króna framlagi Reykjavíkurborgar, sem ákveðið var í gær, hafa nú safnast um 80 milljónir króna til hjálparstarfs Rauða krossins á hamfarasvæðunum. Alþjóða Rauði krossinn hefur einsett sér að aðstoða fórnarlömb hamfaranna til lengri tíma og telur að sú aðstoð muni kosta um 35 milljarða íslenskra króna.

Stofnaður hefur verið söfnunarreikningur í Íslandsbanka fyrir hjálparstarf Rauða kross Íslands. Forsíða vefs Íslandsbanka, www.isb.is, var lögð undir skilaboð til viðskiptavina um að láta ekki sitt eftir liggja vegna hörmulegra afleiðinga flóðanna í kjölfar jarðskjálftans á öðrum degi jóla. Notendur Netbanka Íslandsbanka geta millifært beint inn á söfnunarreikninginn með því að smella á tengil á forsíðunni, en reikningurinn er númer 5566 í banka 515, höfuðbók er 26 og kennitalan er 530269-2649. Viðbrögðin hafa verið vonum framar. Nú í morgun höfðu 1.117 lagt inn á söfnunarreikninginn og safnast rétt um fjórar milljónir króna. Áfram verður tengill á söfnunarreikninginn á forsíðunni fyrir þá sem vilja leggja góðum málstað lið.

Áður höfðu Íslandsbanki og Sjóvá-Almennar ákveðið að verja einni milljón króna hvort fyrirtæki til hjálparstarfs Rauða kross Íslands í Asíu.

„Við erum afar þakklát fyrir stuðning Íslandsbanka og Sjóvár-Almennra, sem hafa bæði gefið til hjálparstarfsins og gefið viðskiptavinum sínum kost á að gefa fé í öruggu umhverfi á vef Íslandsbanka," segir Sigrún Árnadóttir, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands. „Við erum ekki síður þakklát því fólki sem hefur nýtt sér þessa leið til að styðja fórnarlömb hamfaranna í Asíu."

„Undirtektirnar við þessu framtaki voru framar björtustu vonum og sýna vel hverju má áorka þegar margir leggja hönd á plóg. Enn er tækifæri til að leggja góðum málstað lið, en við verðum áfram með tengil á söfnunarreikninginn á vefsíðu Íslandsbanka," segir Bjarni Ármannsson, forstjóri Íslandsbanka.