Rauði krossinn sendir fjármagn og sendifulltrúa til Filippseyja

19. nóv. 2013

Rauði krossinn á Íslandi hefur þegar sent 10 milljónir króna til neyðaraðgerða vegna hamfaranna á Filippseyjum. Dreifing hjálpargagna er í fullum gangi en Rauði krossinn hefur skuldbundið sig til að aðstoða um 500.000 manns. Um 660.000 eru talin hafa misst heimili sín.

Orri Gunnarsson verkfræðingur heldur til Filippseyja í dag þar sem hann mun starfa með neyðarsveit Alþjóða Rauða krossins á Samareyjum. Karl Júlísson hélt á vettvang í gær, en hann er einn reyndasti öryggisnálasérfræðingur Alþjóða Rauða krossins og hefur yfirumsjón með öryggismálum í neyðaraðgerðum á Filippseyjum. Tíu íslenskir sendifulltrúar eru nú í biðstöðu, og hefur Rauði krossinn á Íslandi jafnframt verið beðinn um að útvega starfsfólk á næstu vikum fyrir neyðarsveitir sem sinna almennri heilsugæslu, mæðra- og ungbarnavernd.

Framlag einstaklinga í gegnum söfnunarsíma og bankareikninga Rauða krossins nemur nú um 7 milljónum króna, og eins hefur Rauða krossinum borist framlög frá Icephil, félagi Filippseyinga á Íslandi. Fólk er hvatt til að hringja í söfnunarsíma Rauða krossins 904 1500, 904 2500 og 904 5500 og leggja hjálparstarfinu lið. Þá bætist upphæð sem nemur síðustu 4 tölunum við næsta símreikning. Einnig er hægt að borga með kreditkorti á netinu raudikrossinn.is eða leggja inn á reikning 0342-26-0012, kt. 530269-2649.  

Þörf fyrir fjármögnun neyðaraðgerða Rauða krossins er gífurlegt. Aðgerðir Rauða krossins beinast að því að sinna brýnustu þörfum íbúa á hamfarasvæðunum með dreifingu matvæla, tryggja þeim aðgang að hreinu vatni, setja upp neyðarskýli, veita sálrænan stuðning, heilbrigðisþjónustu og sinna leitarþjónustu fyrir þá sem ekki vita um afdrif ættingja og vina.

Rauði krossinn á Íslandi aðstoðar þá sem misst hafa samband við ástvini á Filippseyjum við að nýta leitarþjónustu filippeyska Rauða krossins. Ein filippeysk fjölskylda á Íslandi hefur komist í samband við ættingja sína á hamfarasvæðinu fyrir tilstilli Rauða krossins, og er fólki sem leitar ástvina sinna bent á að nýta sér þjónustu Rauða krossins.  

Fyrirspurnir eru sendar beint á Rauða krossinn á Filippseyjum, en ekki hefur verið hægt að taka á móti rafrænum beiðnum þar sem fjarskiptakerfi liggur meira og minna niðri á þessum slóðum. Leitarþjónusta Rauða krossins hefur verið starfrækt í 140 ár, fyrst vegna styrjaldarátaka en nú í auknum mæli í kjölfar náttúruhamfara.

Karl Júlísson hélt á vettvang í gær, en hann er einn reyndasti öryggisnálasérfræðingur Alþjóða Rauða krossins og hefur yfirumsjón með öryggismálum í neyðaraðgerðum á Filippseyjum.