Rauði krossinn sendir vatn og segldúka til Tælands

Þóri Guðmundsson

2. jan. 2005

 

Myndin er tekin þegar verið var að hlaða vatni í flugvél sem ríkisstjórn Íslands tók á leigu til að ná í slasaða Svía.

Rauði kross Íslands sendi í dag 10 tonn af vatni og eitt og hálft tonn af segldúkum til flóðasvæða í Tælandi með flugvél sem ríkisstjórn Íslands tók á leigu til að ná í slasaða Svía. Ölgerð Egils Skallagrímssonar gaf vatnið og Seglagerðin Ægir veitti Rauða krossinum verulegan afslátt af segldúkunum.

Um er að ræða 247 segldúka sem nýtast jafn mörgum fjölskyldum - líklega um eitt þúsund einstaklingum - til að koma sér upp bráðabirgðaskýli. Vatninu verður dreift á hamfarasvæðinu, þar sem mikil þörf er fyrir það. 

Almenningur á Íslandi hefur samtals gefið rúmlega 60 milljónir króna til hjálparstarfs Rauða krossins á flóðasvæðum í Asíu. Fleiri en 25.000 manns hafa hringt í söfnunarsíma Rauða krossins 907 2020.

Hjálparstarf Rauða krossins á flóðasvæðunum fer fram með miklum krafti þrátt fyrir erfiðar aðstæður þar sem ástandið er verst. Á norður- og austurhluta Sri Lanka hefur Alþjóða Rauði krossinn dreift eldunaráhöldum, teppum og hreinlætisvörum til rúmlega 60.000 manna og gefið sjúkrahúsum lyf, sárabindi og annan nauðsynlegan útbúnað. Á Indónesíu er þegar búið að dreifa nokkru magni hjálpargagna og á næstu dögum gera starfsmenn Alþjóða Rauða krossins ráð fyrir að útvega um 300.000 mönnum ýmsar nauðsynjar.

Tveir sendifulltrúar Rauða kross Íslands eru á flóðasvæðunum, Hlér Guðjónsson sem vinnur í stjórnstöð Alþjóða Rauða krossins á Sri Lanka og Guðbjörg Sveinsdóttir geðhjúkrunarfræðingur sem er að undirbúa áfallahjálp fyrir þá sem komust lífs af úr flóðinu í Indónesíu.