Umfangsmesta hjálparaðgerð Rauða krossins um áratugaskeið hafin

Konráð Kristjánsson

29. des. 2004

 

Hjálparstarf á vegum Rauða krossins er í fullum gangi um alla álfuna, einkum þar sem ástandið er verst, á Sri Lanka, Indlandi, Tælandi og Indónesíu.

Alþjóða Rauði krossinn sendi í morgun út hjálparbeiðni sem er sú stærsta um áratugaskeið en talin er þörf á um 3 milljörðum króna til hjálparstarfs samtakanna á hamfarasvæðunum við Indlandshaf. Rúmlega tíu þúsund manns á Íslandi hafa hringt í söfnunarsímann 907 2020 og þannig stutt hjálparstarf á svæðinu. Ríkisstjórn Íslands, Pokasjóður, deildir Rauða krossins og fyrirtæki hafa stutt hjálparstarfið með framlögum og hafa rúmlega 20 milljónir króna safnast síðustu daga.

Á vegum Rauða krossins er verið að leita að ástvinum Íslendinga á flóðasvæðunum í gegnum leitarþjónustu Alþjóða Rauða krossins. Fólk sem er áhyggjufullt vegna ástvina sinna á flóðasvæðum getur nú leitað þeirra á netinu, á leitarsíðu Alþjóða Rauða krossins, www.familylinks.icrc.org. Þar getur fólk á flóðasvæðunum skráð sig og ættingjar og vinir geta sömuleiðis skráð að þeir séu að leita að viðkomandi. Einnig er hægt að hringja í Hjálparsíma Rauða krossins 1717 eða hafa samband við Rauða kross deildir í hverju byggðarlagi.

Hjálparstarf á vegum Rauða krossins er í fullum gangi um alla álfuna, einkum þar sem ástandið er verst, á Sri Lanka, Indlandi, Tælandi og Indónesíu. Hjúkrunargögn fyrir 120.000 manns hafa verið send til Sri Lanka auk þess sem tjöld, matvæli og önnur hjálpargögn hafa verið send þangað.

Verið er að skipuleggja aðstoð við 150.000 manns á norður- og austurhluta Sri Lanka, en sá landshluti er undir stjórn skæruliða. Flugvél Rauða krossins fór í gær frá Nairobí til Sri Lanka með 105 tonn af hjálpargögnum, sem eiga að nægja til mæta þörfum 50.000 manna. Hlér Guðjónsson sendifulltrúi Rauða kross Íslands er á leiðinni til Sri Lanka þar sem hann mun taka þátt í hjálpstarfi á vegum Alþjóða Rauða krossins.

Meira en 300 sjálfboðaliðar Rauða krossins taka þátt í björgunar- og hjálparstarfi í Indónesíu frá því strax eftir að flóðbylgjurnar komu á land. Verið er að dreifa matvælum og öðrum hjálpargögnum úr stórum vöruskemmum sem Alþjóða Rauði krossinn er með í Aceh. Alþjóðlegar Rauða kross sveitir sem sérhæfa sig í að útvega hreint vatn, veita læknisaðstoð, og stjórna dreifingu hjálpargagna eru á leið til Aceh. Guðbjörg Sveinsdóttir geðhjúkrunarfræðingur fer til Indonesíu í kvöld með teymi áfallahjálparsérfræðinga.  Fleiri sendifulltrúar eru í viðbragðsstöðu.

Tælenski Rauði krossinn hefur komið upp fjórum læknamiðstöðvum á svæðum við vesturströnd landsins. Þá reynir Rauði krossinn í samvinnu við stjórnvöld að aðstoða með ýmsum hætti, einkum með því að útvega drykkjarvatn, matvæli og hjúkrunargögn.

Björgunar- og læknasveitir á vegum Rauða krossins hafa verið að störfum í Tamil Nadu héraði á Indlandi. Þar er nú einnig verið að dreifa fatnaði og drykkjarvatni. Á Andaman eyjum er indverski Rauði krossinn að dreifa 2.000 fjölskyldupökkum, en í þeim eru plastdúkar, teppi, eldunaráhöld og fatnaður.

Hægt er að skoða myndir sem fengnar eru frá Reuters: