Sólveig Þorvaldsdóttir leiðir neyðarteymi Rauða krossins á Filippseyjum

8. des. 2006

Sólveig Þorvaldsdóttir, sem hélt á vegum Rauða krossins til Filippseyja á mánudag er nú komin til starfa á hamfarasvæðinu. Sólveig leiðir eitt af þremur alþjóðlegum neyðarteymum Rauða krossins sem skipuleggur neyðaraðstoð til þeirra sem misstu heimili sín í kjölfar fellibylsins Durian sem gekk yfir eyjarnar fyrir viku.

Sólveig hélt til Albey í gær en þar hefur fjöldi bæja og þorpa grafist undir aurskriðum sem féllu úr eldfjallinu Mayon vegna gífurlegs vatnsveðurs sem fylgdi fellibylnum. Talið er að allt að eitt þúsund manns hafi farist í hamförunum og að um 600.000 manns þurfi á einhverri aðstoð að halda.

Alþjóða Rauði krossinn sendi frá sér neyðarbeiðni á þriðjudag sem hljóðar upp á 7,3 milljónir bandaríkjadollara eða um 500 milljónir íslenskra króna. Filippseyski Rauði krossinn hefur unnið sleitulaust við björgunarstörf og dreifingu hjálpargagna síðan hamfarirnar gengu yfir en hefur nú fengið liðsinni alþjóðlegra sérfræðinga. Rauði krossinn hefur þegar dreift matvælum til um 15.000 manns.

Durian er fjórði fellibylurinn á tveimur mánuðum sem fer með eyðileggingarmætti yfir Filippseyjar. Rauði krossinn mun alls aðstoða um 200.000 manns sem misst hafa heimili sín í þessum hamförum.

Óttast er að ýmsir sjúkdómar kunni að breiðast út vegna mengaðs vatns og slæmrar hreinlætisaðstöðu. Að sögn Sólveigar mun Rauði krossinn einkum beita sér að því að hindra útbreiðslu sjúkdóma með því að sjá fórnarlömbum fyrir aðgangi að hreinu vatni og almennri heilsugæslu. Einnig er mjög brýnt að koma þeim sem misst hafa heimili sín í skjól.

„Þeir sem hafa orðið verst úti í þessum hamförum eru þeir allra fátækustu,” segir Sólveig. „Það eru þeir sem ekki hafa efni á að byggja sér hús á öruggum svæðum heldur hrófla sér upp vistarverum sem geta engan veginn staðist ágang veðurs og vinds, svo ekki sé minnst á fellibyl af þessu tagi.”

Þeir sem vilja styrkja hjálparstarfið í Filippseyjum geta hringt í söfnunarsíma Rauða krossins 907 2020, og þá munu 1.200 kr. skuldfærast af næsta símreikningi.