Þriðji hjálparstarfsmaður Rauða krossins á leið til Filippseyja

29. nóv. 2013

Þriðji hjálparstarfsmaður Rauða krossins á Íslandi heldur til neyðarstarfa á Filippseyjum á morgun. Aleksandar Knezevic rafvirki mun starfa sem tæknimaður á sjúkrahúsi Rauða krossins á Samareyjum næstu sjö vikur. Aleksandar starfaði í 19 mánuði á tjaldsjúkrahúsi Rauða krossins á Haítí eftir jarðskjálftann mikla 2010, en þetta er fyrsta verkefni hans fyrir Rauða krossinn á Íslandi.

Á Samareyjum hittir Aleksandar fyrir Orra Gunnarsson verkfræðing sem hélt til starfa nú um miðjan mánuð. Ástandið er einna verst á eyjunum því þar kom fellibylurinn á land, og lagði nánast öll mannvirki í rúst. Mannfall og slys á fólki urðu einnig mest á þessu svæði sem er eitt fátækasta hérað landsins, og því er þörf fyrir neyðaraðstoð gríðarleg. Sjúkrahús og læknastöðvar fóru mjög illa á Samareyjum, og sér Rauði krossinn að miklu leyti um heilbrigðisaðstoð eyjarbúa, auk þess að dreifa matvælum, hreinu vatni og öðrum nauðþurftum til nauðstaddra.

Þá er Karl Sæberg Júlísson einnig við hjálparstörf á hamfarasvæðinu. Karl er einn reyndasti öryggismálasérfræðingur Alþjóða Rauða krossins og hefur yfirumsjón með uppsetningu öryggisferla í neyðaraðgerðunum.

Fólk er hvatt til að hringja í söfnunarsíma Rauða krossins 904 1500, 904 2500 og 904 5500 og leggja hjálparstarfinu lið. Þá bætist upphæð sem nemur síðustu 4 tölunum við næsta símreikning. Einnig er hægt að borga með kreditkorti á netinu raudikrossinn.is eða leggja inn á reikning 0342-26-0012, kt. 530269-2649.