Rauði krossinn veitir enn mikla neyðaraðstoð í Bandaríkjunum

29. sep. 2005

 

Nemendur um allt land í Bandaríkjunum senda fórnarlömbunum uppörvunarkveðjur. Þessi mynd er frá skóla í Bronx í New York.

Rauði kross Bandaríkjanna fæst nú við afleiðingar náttúruhamfara sem urðu af völdum fellibyljanna Katrínar og Rítu. Þjálfaðir hafa verið tugir þúsund sjálfboðaliða til að aðstoða fórnarlömbin. Hundruð þúsund fórnarlamba Rítu þiggur nú aðstoð frá Rauða krossinum.

Yfir 74 þúsund manns hafa leitað skjóls í um 250 neyðarskýlum. Að auki eru 226 skýli enn opin fyrir þau 44 þúsund sem enn þurfa á þeim að halda eftir fellibylinn Katrínu.

Þegar um hægist mun Rauði krossinn ákveða hvernig best er að veita þeim fjárhagsaðstoð sem á þurfa að halda. Þessari aðstoð er ætlað að brúa bilið þangað til opinberar bætur koma til.

Rauði kross Bandaríkjanna mun halda áfram að aðstoða fólk sem varð fyrir búsifjum vegna Katrínar. Síðan fellibylurinn gekk yfir fyrir þremur vikum hefur Rauði krossinn borið fram tæplega 15 milljónir máltíða.

Rauði krossinn heldur áfram að veita nærri 300 þúsund manns sem misstu heimili sín í kjölfar Katrínar skjól með því að koma þeim fyrir á hótelherbergjum víða um landið. Þetta bætist við þau 902 skýli sem fyrir eru á vegum Rauða krossins, en þar eru nú tæplega 2,5 milljónir manna. Rauði krossins hefur þegar veitt yfir einni og hálfri milljón fjölskyldna fjárhagsaðstoð, sem er meira en helmingur þeirra fjölskyldna sem lentu í Katrínu, og hyggst ná til að minnsta kosti 400 þúsund í viðbót. Rauði krossinn hefur þegar aflað um helming þess fjár sem þarf til þeirrar aðstoðar.