Hamfarir hitta fyrir þá fátæku, veiku og varnarlausu

Johan Schaar

21. sep. 2005

Johan Schaar er yfirmann hjálparstarfs Alþjóða Rauða krossins á flóðasvæðum við Indlandshaf.

Fellibylurinn Katrín hefur þegar verið kallaður tsunami Bandaríkjanna. Það er ýmislegt sameiginlegt með þessum tvennum hamförum, Katrínu og flóðbylgjunum í Indlandshafi en augljóslega er einnig margt ólíkt. Það sem er þó sameiginlegt er óendanleg sorg þeirra sem misst hafa ástvini sína, þeirra sem hafa misst vonir sínar og drauma með vatnsflaumnum og hugrekki hjálparstarfsmanna og örlæti annarra sem hafa opnað heimili sín og gefa af sér til þeirra sem eru í neyð. Þá hefur fólkið sem misst hefur heimili sín bæði í Bandaríkjunum og í ríkjum við Indlandshaf þörf fyrir að halda sjálfsvirðingunni, til áframhaldandi búsetu sem næst fyrri heimkynnum, friðhelgi einkalífsins og að það sé ekki neytt til að lifa við óöryggi og heilsuspillandi skilyrði þegar það er veikast fyrir.

En þjónar það einhverjum tilgangi að bera saman þessar mjög svo sýnilegu náttúruhamfarir? Ef viðkomandi var á röngum stað þegar flóðbylgjan kom eða vatnsborðið hækkaði voru meiri lífslíkur fyrir fullvaxinn karlmann. En að því frátöldu felast möguleikarnir á að ná sér eftir slíkar hamfarir einkum í getu fólks til að koma sér aftur á réttan kjöl. Hvort sem maður er frá Banda Aceh eða New Orleans fer það eftir efnalegri stöðu, tryggingum og aðstoð ættingja og vina hversu vel mönnum tekst að komast yfir áfallið.

Þrautseigja getur verið jafn mikilvægur eiginleiki fyrir samfélag í heild og fyrir einstaklinga, og eins og við getum séð í Aceh og Louisiana þá er það fólkið sem er veikast fyrir sem fer verst út úr hamförum. Þetta fólk er ekki eins verndað og missir meira. Í Bandaríkjunum voru margir hreinlega á röngum stað og gátu ekki með nokkru móti yfirgefið hættusvæðið. Þess vegna skipta bæði aðgerðir til að draga úr fátækt og hjálparstarf vegna hörmunga jafnmiklu máli og þetta tvennt verður að fara saman ef við viljum tryggja öryggi fyrir alla.

Þegar bæði flóðbylgjan við Indlandshaf og fellibylurinn Katrín dundu yfir urðu náttúruöflin okkar eigin afli yfirsterkari. Flóðbylgjurnar orsökuðust af jarðskjálftum sem mannskeppnan kom ekki nálægt, en slíkt er ekki hægt að útiloka í tilfelli Katrínar. Þó að ómögulegt sé að finna beint orsakasamhengi þá vitum við að afl veðrabrigða á borð við fellibyli er líklegt til að aukast með tilkomu loftslagsbreytinga og gróðurhúsaáhrifa.

Þetta þýðir að ein af aðgerðunum til að sporna við hörmungum er að halda niðri eða draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Engan slíkan valkost er að finna til að draga úr því sem olli flóðbylgjunum. En í báðum tilfellum munu viðvaranir sem gefnar eru út tímanlega og brugðist er við á réttan hátt af yfirvöldum á svæðunum og samfélaginu í heild hafa gríðarleg áhrif á það hvernig viðkomandi samfélagi reiðir af. Það sama á við um ýmiss konar varnir eins og skurði og varnargarða. Áætlanir um öruggar borgir geta gert gæfumuninn.

Það er verk allra að bregðast skjótt við hamförum og draga úr hættum sem þær geta valdið, hvort sem um er að ræða yfirvöld eða óbreytta borgara. Ábyrgð allra verður að vera ljós en á endanum eru það yfirvöld sem eru ábyrg fyrir öryggi þegna sinna. Þegar þau ráða ekki við verkið verður alþjóðasamfélagið að sýna samhug og vera tilbúið til aðstoðar. Þetta gerðist í flóðbylgjunum og er aftur að gerast núna í kjölfar fellibylsins Katrínar.

Nú eru átta mánuðir liðnir frá flóðbylgjunum og þetta er sá tími sem samfélögin við Indlandshaf hafa haft til að jafna sig. Það ferli er rétt að byrja í Bandaríkjunum. Viðfangsefnin eru að mörgu leyti önnur. Við Indlandshaf eru auðvitað fleiri flöskuhálsar en í Bandaríkjunum. Á flóðbylgjusvæðunum þurfa mörg lönd auk þess að finna nýtt landssvæði til að reisa hýbýli fyrir þá sem misst hafa heimili sín og þar skapast deilur á stöðum þar sem vantar skrár um eignarhald á jarðnæði.

Það sem er þó líkt með þessu tvennu er að þeir sem lifa af verða óþreyjufullir eftir því að sjá heimili sín og lífsviðurværi byggð upp að nýju. Við sem komum að hjálparstarfi verðum að gera okkar besta til að svo verði en jafnframt verðum við að tryggja að þau samfélög sem byggjast upp séu öruggari og traustari, njóti meiri verndar gegn fellibyljum, flóðbylgjum og öðrum náttúruhamförum sem við getum búist við að verði öflugri og tíðari í framtíðinni.