Fjöldahjálparteymi Rauða kross Íslands í viðbragðsstöðu vegna Katrínar

Konráð Kristjánsson

5. sep. 2005

 

Mynd: Daniel Cima. Bandaríski Rauði krossinn.

Rauði kross Íslands hefur boðið bandaríska Rauða krossinum aðstoð vegna hjálparstarfsins í kjölfar fellibylsins Katrínar. Um er að ræða 5-10 manna teymi sem vinnur í fjöldahjálparskýlum þar er tekið á móti fólki sem hefur þurft að yfirgefa heimili sín.

?Bandaríski Rauði krossinn tók vel í boð okkar um að senda fólk með reynslu og þekkingu á rekstri fjöldahjálparsstöðva og það skýrist á næstu dögum hvort boðið verður þegið? sagði Sigrún Árnadóttir, framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands eftir símafund Alþjóða Rauða krossins fyrr í dag. Um 80 slíkir sérfræðingar Rauða krossins frá nokkrum landsfélögum Rauða krossins eru þegar á leið til Bandaríkjanna.

Yfir 135 þúsund manns gista nú skýlum Rauða krossins sem eru yfir 470 talsins. Yfir 5 þúsund starfsmenn og sjálfboðaliðar Rauða krossins hafa útvegað yfir 2 milljónir máltíða síðan fellibylurinn reið yfir auk þess að veita fólki aðhlynningu og sálrænan stuðning.

Á vefsíðu bandaríska Rauða krossins er hægt að leita frétta af sínum nánustu sem er saknað. Nú þegar hafa 67 þúsund manns leitað upplýsinga á vefsíðunni, slóðin er www.redcross.org og er smellt á ?Family Links Registry? til að skrá sig.

Þeir sem vilja styðja hjálparstarfið vegna fellibylsins Katrínar geta greitt inn á reikning Rauða kross Íslands nr. 12 í banka 1151, höfuðbók 26 og kennitala 530269-2649 eða farið inn á vefsíðu félagsins www.redcross.is