Hætta steðjar enn að tugþúsundum fórnarlamba jarðskjálftans í Pakistan ári síðar

7. okt. 2006

Um 400,000 manns eru enn heimilislausir ári eftir jarðskjálftann mikla sem reið yfir Pakistan í fyrra. Alþjóða Rauði krossinn óttast afdrif þessa fólks þar sem veður fer nú kólnandi. Verði vetur harður þetta árið gætu margir þurft aftur á neyðaraðstoð að halda á þessum slóðum.

Rúmlega 73.000 manns létust í skjálftanum sem skók norðurhluta landsins þann 8. október 2005 og 3,5 milljónir misstu heimili sín. Alþjóða Rauði krossinn ásamt Rauða hálfmánanum í Pakistan hafa aðstoðað rúmlega 1,1 milljón manns á þessum slóðum og eru því viðbúnir að dreifa rúmlega 8,000 tjöldum, 135,000 bárujárnsplötum, byggingarefni og verkfærakössum nú í vetur til þeirra sem eru enn ekki komnir í húsnæði til frambúðar.

Jafnframt mun Rauði hálfmáninn og Alþjóða Rauði krossinn halda áfram verkefnum sínum til uppbyggingar í Pakistan fram til ársins 2008. Verkefni Rauða krossins og Rauða hálfmánans lúta að almennri heilsugæslu, sálrænum stuðningi, vatns- og hreinlætisaðstöðu, fræðslu og þjálfun auk þess sem dreift hefur verið útsæði, áburði og áhöldum til jarðyrkju til að aðstoða fórnarlömb skjálftans við að koma undir sig fótunum að nýju.

Framlag Rauða kross Íslands vegna jarðskjálftans nam alls 57 milljónum króna og var meginþorri þeirrar upphæðar framlag almennings. Þá voru 8 sendifulltrúar sendir út til starfa í Pakistan á liðnu ári.  Þeir voru:

Jón Hafsteinsson sjúkraflutningamaður, starfaði í þyrluteymi ICRC í Muzzafarabad
Hildur Magnúsdóttir hjúkrunarfræðingur stýrði sjúkrahúsi IFRC í Abottabad
Sólveig Ólafsdóttir upplýsingafulltrúi, starfaði með IFRC í Islamabad og norður í landi
Karl Sæberg Júlísson öryggisfulltrúi, starfaði á skjálftasvæðunum
Valgerður Grímsdóttir svæfingahjúkrunarfræðingur, starfaði á sjúkrahúsi ICRC í Muzzfarabad
Rafn Jónsson flugsstjóri stýrði hjálparflugi fyrir ICRC í Islamabad
Maríanna Csillag hjúkrunarfræðingur stýrði hjúkrun á sjúkrahúsi IFRC í Abottabad og
Oddfríður Ragnheiður Þórisdóttir hjúkrunarfræðingur sem stýrði heilsugæsluteymi á svæðinu.

Flestar byggðir sem urðu hvað verst úti í skjálftanum í fyrra eru mjög afskekktar og erfiðar yfirferðar. Líf íbúa er einnig í mjög föstum skorðum og byggir á aldagömlum hefðum. Í því skyni að geta veitt konum og börnum viðunandi þjónustu á sviði heilsugæslu hefur Rauði krossinn sent teymi af kvenlæknum og hjúkrunarfræðingum út í sveitirnar þar sem ekki þykir tilhlýðilegt að konur þiggi læknisaðstoð hjá karlmönnum.