Ár frá jarðskjálftanum í Pakistan: Hundruð þúsunda enn heimilislaus

6. okt. 2006Eftir Atla Ísleifsson blaðamnn á Blaðinu. Viðtal við Sólveigu Ólafsdóttur sviðsstjóra útbreiðslusviðs birtist í Blaðinu í dag. Á aðra milljón manna hefur þegið neyðaraðstoð
Aðstæður mjög erfiðar til hjálparstarfs
Um 80 þúsund létust af völdum skjálftans

„Enn er stór hluti fólks ekki kominn í endanlegt húsnæði á skjálftasvæðunum í Pakistan og enn má sjá afleiðingar skjálftans víða," segir Sólveig Ólafsdóttir, sviðsstjóri útbreiðslusviðs Rauða krossins.

Á sunnudaginn er eitt ár liðið frá því að mikill jarðskjálfti skók Kasmír-hérað í Pakistan snemma dags þann 8. október. Skjálftinn mældist 7,6 á Richter-kvarða, en talið er að um áttatíu þúsund manns hafi látið lífið af völdum skjálftans og 3,5 milljónir manna misst heimili sín.

„Um sjötíu þúsund fjölskyldur, eða um 350 þúsund manns, eru enn ekki komnar í endanlegt húsnæði og nú er vetur að ganga í garð á ný. Það var lán í óláni í fyrra að veturinn var mjög mildur og voraði snemma. Menn höfðu óttast að holskefla yrði af fólki sem myndi látast úr vosbúð," segir Sólveig.

Á skjálftasvæðunum eru einir af hrikalegustu fjallgörðum jarðarinnar, sem gerðu flutning hjálpargagna á svæðin mjög erfiðan. „Kostnaðarsamt er að flytja tjöld og aðrar nauðsynjar á skjálftasvæðin, en þau eru mjög fjöllótt og erfitt að koma gögnum á áfangastað. Víða reyndist eini möguleikinn að notast við burðardýr til að koma nauðsynlegum varningi til heimilislausra fjölskyldna í fjarlægum byggðum."

Áætlanir gera ráð fyrir að Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn hafi aðstoðað á aðra milljón manna á skjálftasvæðunum í Pakistan. „Í upphafi var tjöldum dreift og reynt að koma fólki í skjól fyrir vetrartímann, gert að sárum fólks og fengist við hefðbundna hjálparstarfsemi. Nokkrum vikum eftir skjálftann var svo farið að dreifa verkfærakössum, bárujárni og öðru til að fólk gæti farið að lagfæra eigið húsnæði ef sá möguleiki væri fyrir hendi. Fjöldi fólks kaus það frekar en að vera í tjaldbúðum allan veturinn," segir Sólveig.

Að undanförnu hefur Rauði krossinn mest verið að aðstoða fólk á sviði heilbrigðismála og almennra hreinlætismála. „Vatnshreinsitæki voru sett upp og leiðslur lagðar í tjaldbúðirnar þar sem fólk leitaði skjóls. Við höfum staðið fyrir hreinlætiskynningu til að fá fólk til að passa að menga ekki vatnsbólin og koma í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma. Í lok sumars kom upp kólerufaraldur, en sem betur fer tókst að koma í veg fyrir útbreiðslu hans. Markmiðið hefur verið að efla fólk í þorpunum til að geta bætt lífsskilyrðin sjálft, frekar en að reiða sig á aðra hvað þetta varðar."

Sólveig segir að Rauði krossinn hafi orðið áþreifanlega var við það stuttu eftir skjálftann, að konur á skjálftasvæðunum hafi haft afskaplega lítil tækifæri til þess að koma þörfum sínum á framfæri. „Hjálpin var í fyrstu mjög karlmiðuð. Svæðið er mjög hefðbundið þar sem karlmenn eru algerlega í forsvari og konur fara ekki út án þess að vera í fylgd með karlmönnum," segir Sólveig.

Fljótlega eftir skjálftann komu fyrir tilfelli þar sem konum var hreinlega neitað af karlmönnum að láta gera að sárum sínum, þar sem hjálparstarfsmennirnir voru langflestir karlkyns í upphafi. „Því varð fljótlega ljóst að kyngreina þyrfti aðstoðina og heilbrigðisstöðvar voru reistar að þörfum kvenna, þar sem einungis voru kvenkyns læknar og hjúkrunarfræðingar."

Eftir Atla Ísleifsson
[email protected]