Söfnum hlýjum nýjum fötum fyrir Sýrland

30. jan. 2014

Rauði krossinn stendur fyrir fatasöfnun dagana 30. janúar – 9. febrúar ásamt Fatímusjóði og hópnum Sendum hlýjan fatnað til Sýrlands. Einungis verður tekið við nýjum fatnaði og prjónavörum sem dreift verður til sýrlenskra flóttamanna. Stefnt er á að safna um 5000 kílóum af nýjum flíkum, og er sérstök áhersla lögð á skjólfatnað fyrir konur og börn.

Fólki sem vill leggja söfnuninni lið er bent á að merkja fatapoka vel Sýrlandssöfnun. Best er að skila fatnaði beint í fatasöfnun Rauða krossins að Skútuvogi 1, Reykjavík, eða í fatagáma Rauða krossins á grenndarstöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Fólki af landsbyggðinni er bent á að koma fatnaði til næstu Rauða kross deildar í sinni heimabyggð, í fatagáma Rauða krossins, eða beint á móttökustöðvar Eimskips/Flytjanda. Eimskip/Flytjandi er helsti styrktaraðili fatasöfnunar Rauða krossins og sér um að flytja fatnað innanlands félaginu að kostnaðarlausu.

Ástæðan fyrir því að einungis er óskað eftir nýjum fötum liggur í menningarlegum gildum á svæðinu, og kröfu systurfélaga Rauða krossins sem sjá um dreifingu hjálpargagna til flóttafólksins. Þeir sem vilja leggja fram starfskrafta sína við flokkun og pökkun fatnaðarins bent á að senda skrifleg skilaboð á Facebook síðuna Sendum hlýjan fatnað til Sýrlands eða hafa beint samband við Jóhönnu Kristjónsdóttur eða Jóhönnu Fjólu Ólafsdóttur á netföngin jemen@simnet.is eða fjolaola@internet.is.