Fíton styrkir hjálparstarf í Pakistan

Konráð Kristjánsson

20. jan. 2006

 

Þormóður Jónsson framkvæmdastjóri Fíton afhendir Sólveigu Ólafsdóttir framlag til hjálparstarfsins í Pakistan.

Auglýsingastofan Fíton tók upp á þeirri nýbreytni að minna á hjálparstarf Rauða krossins í jólakveðju sinni til viðskiptavina. Undirtektirnar voru mjög góðar og rúmlega 200 viðskiptavinir endursendu þar til gerða afrifu af jólakortinu en Fíton hét því að styrkja hjálparstarf Rauða krossins í Pakistan um 1.000 krónur fyrir hvert endursent kort.

Þormóður Jónsson framkvæmdastjóri Fíton afhenti Sólveigu Ólafsdóttur sviðstjóra útbreiðslusviðs Rauða kross Íslands 205.000 krónur framlag fyrirtækisins til styrktar hinu erfiða hjálparstarfi sem nú fer fram á jarðskjálftasvæðunum í Pakistan.