Rauði krossinn treystir á konur í heilbrigðisgeiranum til að bæta heilbrigðiskerfið í Pakistan

Sólveigu Ólafsdóttur

17. nóv. 2005

 

Asnar eru notaðir við dreifingu tjaldanna í Balakot og nágrannaþorpin.

Alþjóða Rauði krossinn hefur hafið dreifingu tjalda og annarra nauðsynja til um 200 kvenna í heilbrigðisgeiranum í Pakistan sem búa víðs vegar í norðvesturhéraðinu þar sem jarðskjálftinn 8. október hafði mest áhrif. Yfirleitt veita þessar konur heilbrigðisþjónustu til afskekktra fjallaþorpa en margar þeirra hafa ekki getað haldið henni úti eftir jarðskjálftann. Stuðningur Alþjóða Rauða krossins tryggir að konurnar geti haldið henni úti frá 200 mismunandi stöðum í héraðinu.

Konurnar eru hluti af heilbrigðisneti landsins og hafa fengið þjálfun í að veita grunnþjónustu og fyrstu hjálp, taka þátt í að fræða fólk um hreinlæti og forvarnir gegn sjúkdómum. Þá veita þær einnig mikilvæga þjónustu hvað varðar heilsu kvenna. Yfirleitt halda konurnar þessari þjónustu úti frá heimilum sínum en flestar konurnar misstu heimili sín í jarðskjálftanum. Rauði krossinn er nú að útvega þeim sérstök tjöld fyrir veturinn sen eru stærri en hefðbundin fjölskyldutjöld svo að konurnar geti boðið þessa þjónustu áfram.

Með dreifingu tjaldanna styður Rauði krossinn kerfi sem þegar var til staðar. Konurnar gegna lykilhlutverki í samfélaginu og með tilkomu tjaldanna geta þær haldið áfram að bjóða þessa þjónustu í sínu umhverfi. Þarna fá þær góða aðstöðu og nægilegt rými til að taka til starfa.

Með aðstoð Rauða hálfmánans í Pakistan og heilbrigðisyfirvalda hefur tekist að hafa upp á um 200 heilbrigðisstarfsmönnum sem þurfa á húsaskjóli að halda. Hjálparstarfsmenn Rauða krossins mun dreifa um 90 tjöldum í Balakot og önnur þorp í dalnum Kaghan, 50 tjöldum í og við Garhi Habibullah og 60 í Batagram-héraðinu.

Rauði krossinn hyggst á næstunni vinna mjög náið með þessum konum til að viðhalda nauðsynlegri heilbrigðisaðstoð í landinu. Þá geta þær hugsanlega nýst Rauða krossinum til að veita sálfræðilegan stuðning á svæðum sem ekki hefur náðst til ennþá, auk þess að aðstoða fólk við að ná í vatn og auka hreinlæti.

Alþjóða Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn í Pakistan hafa nú þegar veitt yfir 30 þúsund manns læknisaðstoð frá því að jarðskjálftinn reið yfir.