Útbreiðsla sjúkdóma ógnar fórnarlömbum jarðskjálftans

Sólveigu Ólafsdóttur, Balakot

14. nóv. 2005

 

Íbúar Balakot hafa nú aðgang að sjö vatnskrönum

Sólveig Ólafsdóttir fjölmiðlafræðingur er sendifulltrúi í Pakistan. Hún vinnur sem upplýsingafulltrúi Alþjóða Rauða krossins.

Eftir Þær ríflega þrjár milljónir manna sem misstu heimili sín í jarðskjálftanum í Pakistan standa nú frammi fyrir nýrri ógn. Sjúkdómar sem berast með vatni hafa verið að breiðast út um tjaldbúðirnar. Þar sem fólkið býr þétt og aðgangur að öruggu vatni og hreinlæti er ekki mikill er mikil hætta á kólerufaraldri. Alþjóða Rauði krossinn reynir að hefta útbreiðslu þessara sjúkdóma með fræðslu og að útvega aðgang að hreinu vatni með því að hreinsa vatnið í þorpum á borð við Balakot og Batagram. Þessar aðgerðir geta útvegað öruggt drykkjarvatn til allt að 100 þúsund manna á dag.

Nokkur þúsund manns hafa komið sér fyrir neðarlega í dalnum Kaghan í norðvesturhéraði Pakistan. Flestir þeirra hafa tjaldað meðfram ánni. Þetta fólk reynir að gera sín daglegu verk, m.a. að þvo föt, þvo upp leirtau og baða sig. Þó að flestir geri sér grein fyrir hættunni sem fylgir því að drekka vatn sem ekkert hefur verið meðhöndlað getur stundum verið of freistandi að drekka vatnið úr ánni í stað þess að ganga að næsta brunni.

„Við notum vatnið úr ánni til flestra hluta. Það er erfitt að finna hreint drykkjarvatn en þegar það tekst förum við í brunninn við moskuna," segir Mahroofan, fimm barna móðir sem er komin til Balakot með fjölskylduna frá fjallaþorpinu Bagra.

Vatns- og hreinlætisaðstaða er af skornum skammti í þessu tjaldbúðum. Margir eru komnir frá þorpunum í fjöllunum með það sem eftir er af búfénaði sínum. Þessi samsetning ógnar heilsu fólks þar sem vatnið mengast auðveldlega og þegar eru komnar sterkar vísbendingar um sjúkdóma sem stafa af notkun og neyslu mengaðs vatns.

„Við verðum að halda vöku okkar þar sem við sjáum sífellt fleiri tilfelli af kláða og niðurgangi á þessum svæðum," segir Hakan Sandbladh sem starfar hjá Alþjóða Rauða krossinum við að gæta að heilsu fólks við hvers konar hörmungar. ?Við höfum áhyggjur af því að faraldur eigi eftir að brjótast út af sjúkdómum eins og kóleru og við verðum að gera okkar besta til að útvega fólki hreint vatn og hreinlætisaðstöðu.?

Mahroofan hefur einnig áhyggjur af hreinlæti þar sem engin almennileg salerni eru í þorpinu. Ástandið hjá henni er erfitt þar sem hún þarf sífellt að sjá um veik börn sín og gamla og veikburða tengdamóður. ?Börnin og móðirin hafa verið veik, með slæman magaverk og uppköst,? segir hún og bætir því við að ástæðunnar megi líklega leita í vatninu sem þau nota.

Zaniab, sem býr í tjaldi neðar við ána hefur einnig áhyggjur. Það tók hana og börnin hennar sex þrjá daga að ganga frá fjallaþorpinu Hangrai, en það þorp jafnaðist við jörðu í jarðskjálftanum. Eiginmaður hennar dó en fjölskyldan fær hjálp frá tveimur bræðra hennar. „Við komum til Balakot því að það er ekkert eftir í Hangrai. En við höfum lent í miklum vandræðum með að fá hreint vatn þannig að öll börnin hafa verið veik."

Það skiptir gríðarlegu máli að útvega heimilislausu fólk í Balakot hreint vatn. Aðeins nokkrum dögum eftir að vatnshreinsunarteymi frá Rauða krossi Svíþjóðar og Austurríkis hóf starfsemi tóku starfsmenn Rauða kross Spánar sem sjá um að veita læknishjálp eftir því að stórlega dró úr sjúkdómum sem berast með vatni. „Margir sem leita aðstoðar okkar þjást af kláða og eru slæmir í maganum. Undanfarna daga hefur dregið úr því og slíkum tilfellum hefur ekki fjölgað neitt gríðarleg eins og gerðist fyrst eftir að heilsugæslan hér tók til starfa," segir Martha Guixens, einn af læknum Rauða kross Spánar.

Vatnshreinsunarlið Rauða krossins getur útvegað allt að 500 þúsund lítra af vatni á dag og séð um 50 þúsund manns fyrir hreinu vatni. Nú er aðgengilegt vatn fyrir um 20 þúsund manns. Þetta teymi hefur aðgang að sömu vatnsuppsprettu og aðrir, þ.e. ánni, en þaðan fer vatnið í þrjá sérstaka hreinsunartanka. „Við höfum komið upp sjö krönum víðsvegar um búðirnar og einum stað þar sem bílar fylla á tanka sem dreifa hreinu vatni til þeirra sem eru utan aðalsvæðisins," segir Gert Teppner sem er í teyminu. „Það er búið að gæðaprófa vatnið og það er algjörlega hreint þannig að við erum ánægðir."

Og það sama má segja um fólkið í búðunum. Nú þarf ekki lengur að koma upp vatnsbirgðum frá ánni eða brunnunum, heldur getur fólkið gengið beint að krönunum hvenær sem er og náð í eins mikið af hreinu vatni og það vill. „Það var mikill skortur á drykkjarvatni og það olli margvíslegum vandræðum," segir Abdul Khankun, sjötugt fórnarlamb jarðskjálftans meðan hann fyllir á vatnsflösku. „Guði sé lof fyrir Rauða krossinn sem útvegar okkur hreint vatn."

Vatnhreinsunarteymið hefur unnið með sjálfboðaliðum Rauða hálfmánans í Pakistan frá Balkot. Í sameiningu hafa þeir lagt leiðslu um búðirnar og fengið þjálfun til að halda því starfi áfram þegar Rauði krossinn dregur sig úr hjálparstarfinu eftir einhverja mánuði. Það sem skiptir mestu máli núna er að koma upp hreinlætisaðstöðu og þvottasvæðum fyrir fólk áður en veturinn gengur í garð.

Hér eru fleiri myndir sem Sólveig tók í Balakot.