Hægt er að koma í veg fyrir verulegt mannfall

Konráð Kristjánsson

10. nóv. 2005

 

Jón Hafsteinsson sjúkraflutningamaður (fyrir miðju) hlúir að slösuðu barni. Faðir barnsins stendur hjá.

Hægt er að koma í veg fyrir dauða þúsunda manna ef aðstoð berst í tíma að sögn framkvæmdastjóra Alþjóða Rauða krossins, Markku Niskala. ?Það er hægt að koma í veg fyrir verulegt mannfall ef við fáum þann stuðning frá alþjóðasamfélaginu sem nauðsynlegur er nú þegar veturinn er að ganga í garð,? segir Markku. Enn vantar rúmlega helming upp í 7 milljarða króna neyðarbeiðni Alþjóða Rauða krossins svo hægt sé að koma fólki í skjól og veita læknisaðstoð í tæka tíð.

Tæplega 30 þúsund manns hafa fengið læknisaðstoð á vegum Alþjóða Rauða krossins og pakistanska Rauða hálfmánans. Jón Hafsteinsson sjúkraflutningamaður er í þyrluteymi Rauða krossins. ?Það eru allir vegir í sundur og ekki hægt að fara um á sjúkrabílum og við verðum því að flytja fólkið í þyrlu,? segir Jón.

Hildur Magnúsdóttir hjúkrunarfræðingur starfar á færanlegu sjúkrahúsi Rauða krossins í Abbottabad þar sem 40% sjúklinga eru börn. ?Hér ríkir eining milli ólíkrar menningar og trúarbragða í fjölbreyttum hópi hjálparstarfsmanna og samvinnan við fólkið hérna er mjög góð,? segir Hildur.

Það hafa safnast 46,5 milljónir í söfnun Rauði kross Íslands fyrir fórnarlömb jarðskjálftans í Pakistan. Enn er tekið við framlögum í söfnunarsíma Rauða krossins 907 2020 og á reikning Hjálparsjóðs Rauða kross Íslands í SPRON, 1151-26-00012, kennitala 530269-2649. Einnig er hægt að fara inn á www.redcross.is