Hjálpargögn eru góð en vilji til að lifa ræður úrslitum

Jón Sigurð Eyjólfsson

7. nóv. 2005

 

Sólveig Ólafsdóttir og pakistanskur samstarfsmaður hennar Ghalib líta upp frá önnum Á skrifstofu Rauða krossins í Islamabad. 

Þessi grein birtist í Fréttablaðinu 02.11.2005

Enn bíða erfið verk hjálparstarfsmanna á hamfarasvæðunum í Pakistan eftir jarðskjálftan 8. október síðastliðin. Yfirvöld í landinu áætla að 55 þúsund manns hafi týnt lífi, 78 þúsund manns slasast og 3 milljónir misst heimili sín. Sólveig Ólafsdóttir, upplýsingarfulltrúi hjá alþjóðasambandi Rauða krossins er í Norðvestur hluta Pakistan og lýsir þeim vanda sem við mönnum blasir þar.

Jón Sigurður er blaðamaður

 

„Ég hef starfað nokkuð lengi við hjálparstörf víðsvegar um heim en ég verð að segja það að þó ég sé upplýsingarfulltrúi þá á ég varla til orð sem að lýsa því ástandi sem við manni blasir hér," segir Sólveig. „Það eru hreinlega heilu fjallahéruðin sem hafa hrunið niður hlíðarnar og það er gjörsamlega ekkert eftir. Ekki bætir svo úr skák að nú er vetur að ganga í garð og nú þegar er hitinn kominn niður við frostmark á kvöldin. Því liggur mikið við að reyna að koma fólkinu til hjálpar áður en það fer að snjóa."

Bersýnilegur árangur af starfinu
„En aftur á móti fallast mér ekki hendur því að maður sér það greinilega að starf Rauða krossins er að bera mikinn ávöxt. Ég sá það vel um daginn þegar ég fór til 30 þúsund manna bæjar sem heitir Balakot en þar eru nær allir heimilislausir eftir hamfarirnar. Þar er hinsvegar búið að dreifa hjálpargögnum og komið hefur verið á laggirnar vatnshreinsistöð svo allir hafa aðgang að hreinu vatni. Þetta hefur þýtt það að töluvert hefur dregið úr sjúkdómum og ástandið þarna er svo miklu betra en í þeim þorpum þar sem enn hefur ekki tekist að koma fólki til aðstoðar vegna þess að samgöngur liggja alveg niðri. Þannig að maður sér að þetta er að skila árangri og það stappar í manni stálinu."

Enn fjöldi fólks án aðstoðar
„Við vorum að byrja í fyrradag á því að koma hjálpargögnum til afskektari svæðanna með þyrlum en samgöngur liggja niðri mjög víða. Það liggur mjög mikið á því að koma fólki þar til hjálpar því víða verður orðið nokkuð snjóþungt í lok mánaðarins. Í gær komum við hjálpargögnum til 300 fjölskyldna en enn er mikill fjöldi fólks sem aðstoð okkar hefur ekki náð til."

Dáist af lífsvilja fólksins
„Það getur vissulega verið erfitt að standa frami fyrir fólki sem allt hefur harmasögur að segja og geta aðeins hjálpað því að ósköp takmörkuðu leyti. En það sem hjálpar manni við þær aðstæður er að fólkið fagnar því að sjá annað fólk sem er komið víða að og verða þannig vart við það að heimsbyggðinni stendur ekki á sama. Svo þykir fólki gott að rekja raunir sínar og létta þannig af harmi sínum. Þess vegna lít ég svo á að sem upplýsingafulltrúi sé ég ekki aðeins að ná upplýsingum frá fólki heldur komi ég því að einhverju gagni. En það sem gefur manni hvað mest er að verða vitni að því hvað ótrúlegur lífvilji og þróttur virðist leysast úr læðingi hjá mannfólkinu þegar hörmungar dynja yfir. Ég fyllist aðdáun þegar ég verð var við þennan kraft í fólki og ég veit það að hjálpargögn og aðstoð koma að gagni en það sem mestu ræður um örlög fólksins er þessi lífsvilji þess. Kraftaverkin gerast þega hann er til staðar en án hans er þetta vonlítið."

Fastandi hjálparstarfsmenn
„Það er að mörgu að hyggja í þessu starfi mínu sem upplýsingafulltrúi. Það er sífelt verið að endurmeta aðstæður og laga allar áætlanir eftir því þannig að ég verð að fylgjast vel með á öllum stöðum svo ég sé alltaf að gefa réttar upplýsingar. Svo verður maður að taka tillit til þeirrar menningar sem hér ríkir en ég vinn mjög mikið og náið með heimamönnum. Þannig vil nú til að þetta ber upp á Ramadam sem er helgasta og mesta hátíð múslima og þá ber þeim að fasta frá sólarupprás til sólarlags. Þetta vilja flestir samstarfsmenn mínir frá pakistanska Hálfmánanum (Rauði krossinn í Pakistan) virða þó aðstæður séu með þessu móti og ég verð að taka tillit til þess. Ég fer því afsíðis þegar ég þarf að næra mig í stað þess að borða fyrir framan fastandi fólk. Þetta er bara smá dæmi um það sem huga ber að þegar maður vinnur með mörgu og ólíku fólki."

Gott að koma heim
Verkefnið sem Sólveig er þátttakandi í stendur í einn mánuð en þá fer hún til Sri Lanka þar sem hún hefur starfað undanfarið fyrir Alþjóðaráð Rauða krossins. ?Ég kem svo heim fyrir jól og það verður ósköp gott. Þó þetta starf sé mjög gefandi tekur það heilmikið á líkamlega sem og andlega. Það er því alveg nauðsynlegt að koma heim og pústa aðeins. En meðan ég veit það að ég hef komið einhverjum til góða og bjargað einhverjum mannslífum þá get ég horft stolt til baka og það hvetur mig til frekari starfa."