Reykjavíkurborg gefur 5 milljónir til neyðarhjálpar í Pakistan

Konráð Kristjánsson

2. nóv. 2005

 

Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri og Kristján Sturluson framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands.

Í morgun afhenti Steinunn Valdís Óskarsdóttir borgarstjóri fimm milljónir króna til söfnunar Rauða kross Íslands vegna hamfaranna í Pakistan.

?Þetta rausnarlega framlag færir okkur umtalsvert nær takmarki okkar um að veita 50 milljónum króna til hjálparstarfsins í Pakistan,? segir Kristján Sturluson framkvæmdastjóri Rauða kross Íslands.

Með framlagi Reykjavíkurborgar hafa nú safnast um 45 milljónir króna til neyðarhjálpar í Pakistan frá almenningi, ríkisstjórn og úthlutun úr neyðarsjóði Rauða kross Íslands. Takmarkið er að veita 50 milljónum króna til hjálparstarfsins í Pakistan. Nú vantar fimm milljónir króna upp á að það takmark náist.

Yfir 200 hjálparstarfsmenn frá 24 löndum eru að störfum á vegum Alþjóða Rauða krossins í Pakistan. Þar á meðal eru þrír sendifulltrúar Rauða kross Íslands. Það eru þau Sólveig Ólafsdóttir upplýsingafulltrúi, Jón Hafsteinsson sjúkraflutningamaður og Hildur Magnúsdóttir hjúkrunarfræðingur.

Alþjóða Rauði krossinn vinnur nú hörðum höndum við erfiðar aðstæður við að koma neyðarbirgðum til fólks í fjallahéruðum í Pakistan og Indlandi. Búið er að dreifa yfir 9.000 tjöldum og 60.000 teppum.

Þörfin fyrir aðstoð er gríðarleg og fólk er hvatt til að leggja söfnuninni lið með því að hringja í söfnunarsíma Rauða krossins 907 2020 eða leggja inn á Hjálparsjóð Rauða kross Íslands reikning 1151-26-00012 í SPRON, kennitala 5300269-2649. Einnig er hægt að fara inn á www.redcross.is