Mörg þúsund fórnarlamba jarðskjálftanna í Pakistan gætu dáið úr vosbúð

27. okt. 2005

 

Það er erfitt fyrir börn að skilja hvað lífið getur breyst á örskotsstundu.

Mörg þúsund fórnarlamba jarðskjálftanna í Pakistan gætu dáið ef þeir sem veikastir eru fyrir fá ekki nauðsynlega hjálp fyrir veturinn, segir í frétt frá Alþjóða Rauða krossinum. Kallað er eftir langtíma fjárframlögum til að gera aðstoðina mögulega.

Talið er að það þurfi allt að átta milljarða króna til að aðstoða Rauða hálfmánann í Pakistan við að veita hjálp á þeim svæðum sem verstu urðu úti, einkum þeim afskektustu. Aðeins tæplega þriðjungur þessarar upphæðar hefur skilað sér en von er á meiru fljótlega. Meira fjármagn er hins vegar bráðnauðsynlegt ef hjálpin á að bera árangur til lengri tíma litið, að því er fram kemur í máli Juan Manuel Suárez del Toro forseta Alþjóða Rauða krossins.

?Það er ljóst að þetta eru gríðarlegar hörmungar sem krefjast þess að alþjóðasamfélagið auki viðbrögð sín,? segir Juan. Stærsta forgangsatriðið er að fá tjöld sem hægt er að dvelja í yfir vetrartímann en án þeirra mun fjöldi fólks sem veikt er fyrir deyja. Einnig er mikil þörf á teppum, dýnum, ofnum og hreinlætistækjum.

Alþjóða Rauði krossinn stefnir að því að veita um 570 þúsund manns skjól og aðra aðstoð. Þegar hafa yfir 200 vörubílsfarmar af hjálpargögnum frá Rauða krossinum borist á þau svæði sem urðu fyrir tjóni. Dreift hefur verið um 9.000 tjöldum og nærri 40 þúsund teppum. Þá hafa flugvélar komið með um 1.600 tonn af hjálpargögnum í um 40 ferðum, m.a. lyf. Hundruð starfsmanna og sjálfboðaliða Rauða hálfmánans í Pakistan hafa unnið þrotlaust frá því að jarðskjálftinn reið yfir 8. október við að veita fyrstu hjálp og dreifa hjálpargögnum. Læknalið á vegum Rauða hálfmánans hefur þegar sinnt yfir 16 þúsund manns.

En samt sem áður hefur hjálp ekki borist öllum sem þurfa á henni að halda. Má ástæðuna m.a. rekja til slæms veðurfars, aurskriða sem fallið hafa á vegi og hve mörg þorp eru afskekt. Rauði krossinn hefur notast bæði við þyrlur, vörubíla og asna til að komast leiðar sinnar.

Forseti Alþjóða Rauða krossins hefur áhyggjur af því að heimsbyggðin hafi ekki áttað sig á hversu miklar hörmungar hafi átt sér stað þarna, en yfir 54 þúsund manns létu lífið og allt að þrjár milljónir manna eru heimilislausar. Nú nálgast veturinn í Pakistan og getur frostið farið allt niður í 20 stig þegar veturinn er hvað harðastur. Mannúðarsamtök eru því í miklu kapphlaupi við tímann til að koma í veg fyrir fleiri dauðsföll af völdum vosbúðar.