Dagbók hörmunga

Raza Hamdani,

26. okt. 2005

Starfsmaður Alþjóða Rauða krossins, Raza Hamdani, hefur unnið mikið við hjálparstarf í tengslum við jarðskjálftana í Suður-Asía og haldið dagbók eftir hörmungarnar.Muzaffarabad, 13.10.2005.
Mynd: Alþjóða Rauði krossinn / Jón Björgvinsson

Þriðjudagur Jarðskjálftinn hefur skotið allri þjóðinni skelk í bringu og þar er ég engin undantekning. Þegar skjálftinn átti sér stað á laugardag hélt ég utan um eins árs dóttur mína í rúminu og beið eftir að örlögin myndu skera úr um hvort við lifðum þetta af. Starfsfélagar mínir byrjuðu að hafa samband við mig frá Alþjóða Rauða krossinum í Islamabad, en þar vinn ég við samskipti við fjölmiðla. Layla Berlemont samskiptaráðgjafi var nánast í stöðugu sambandi til að fá upplýsingar um hve mikill skaðinn hafði orðið.

Í dag fóru ég og fleiri starfsmenn Rauða krossins akandi til Muzaffarabad. Á leiðinni reyndum við að sjá skemmdirnar en tókst það ekki í fyrstu. Við ræddum hvað við ættum að gera þegar við værum komin á staðinn og höfðum til þess nægan tíma því ferðin sóttist seint vegna skriða sem fallið höfðu á veginn.
Eftir sjö klukkustunda ferðalag, sem yfirleitt tekur aðeins 3-4 tíma, voru við aðeins fjórum kílómetrum frá Muzaffarabad. Við höfðum enn ekki séð neinar skemmdir sem bentu til jafn mikils tjóns og raunin varð. Skyndilega sáum við búðir í vegkantinum og börn og eldra fólk fagnaði okkur. Þetta fólk, sem var búið að missa heimili sín og hafði úr litlu að moða til að draga fram lífið, var að leita eftir huggun og hjálp.

Þegar við komum til Muzaffarabad blasti eyðileggingin við okkur. Lík lágu grafin undir húsarústum og ég fann fyrir vonleysi og máttleysi fólksins á svæðinu. Borgin, sem einu sinni var vel lýst, var nú hulin myrkri. Götur borgarinnar sem áður iðuðu af lífi voru nánast tómar, aðeins sást til nokkurra bíla sem voru að reyna að komast frá borginni. Fólk var á gangi en var ekki á neinni sérstakri leið. Það horfði hins vegar með athygli á bíla sem keyrðu hjá í þeirri von að í þeim væru hjálpargögn.

Við komumst loksins á skrifstofu Rauða krossins, þar sem sprungurnar í veggnum sögðu alla söguna um hvað hafði gerst.

Miðvikudagur
Nóttin var ekki til þess að róa fólk. Margir eftirskjálftar riðu yfir en tveir sem voru sérstaklega sterkir vöktu upp minningar um atburði laugardagsins. Þessir skjálftar voru nógu sterkir til að halda vöku fyrir mér.

Næsta morgun vöknuðum við öll mjög snemma og gerðum okkur klár til að fara á vettvang. Einn fór að líta á staðinn þar sem veita átti læknishjálp og þar átti einnig að vera sjúkrahús með 100 rúmum. Annar kannaði stöðu vatnsbirgða í borginni. Ég ákvað að byrja daginn á því að taka smá ferð um borgina til að átta mig á stöðunni. Bæði hótelin í borginni höfðu hrunið til grunna. Óþefurinn við annað þeirra var nánast óbærilegur ? móttaka þess var óskemmd en hún var full af líkum. Mat og öðrum hjálpargögnum var dreift á nokkrum stöðum í borginni meðal fólks sem varð sífellt örvæntingarfyllra.

Ég sneri aftur á krikketvöllinn þar sem starfsmenn Rauða krossins ræddu áætlanir um dreifingu teppa og ábreiða fyrir 2.500 manns.

Fimmtudagur
Starfsmenn Rauða krossins voru komnir á krikketvöllin kl. 7:30 um morguninn þar sem beðið var eftir þyrlunum og vörubílunum. Fyrst kom þyrlan með teppi og áhöld til lækninga en Rauði krossinn hafði fengið hana til að flýta fyrir dreifingu hjálpargagna. Hópur fólks fór að safnast saman við hlið vallarins og beið þess að dreifing gagnanna hæfist. Vörubílar með fleiri hjálpargögnum komu frá Abbotabad þar sem Alþjóða Rauði krossins er með dreifingarmiðstöð. Þessum gögnum var dreift til 400 fjölskyldna, eða 2.500 manns.

Föstudagur
?Ég sá veggina titra og togaði teppið upp fyrir höfuð og fór með bæn,? sagði Rizwan sem vann með fjölskyldunni sinni að því að bjarga því sem hægt var að bjarga frá rústunum sem einu sinni voru húsið hans í Muzaffarabad. Tárin runnu niður kinnar hans meðan faðir hans starði fram fyrir sig. Rizwan sýni mér rúmið sem 12 ára systir hans svaf í þegar jarðskjálftinn reið yfir með þeim afleiðingum að hún lést. Skólabúningur hennar hékk enn við hlið rúmsins.
Svona sögur eru algengar í Muzaffarabad, svæðinu sem varð verst úti í skjálftunum. Í dag byrjaði þyrla Rauða krossins að flytja slasaða á brott frá Saran, sem er bær í 35 km fjarlægð frá Muzaffarabad. Rauði krossinn flutti yfir 80 manns á brott yfir daginn, aðallega konur og börn. Mikil umferð var um krikketvöllinn af þyrlum sem lentu og tóku svo á loft nánast jafnharðan.

Markmið Rauða krossins var að flytja eins marga og mögulegt er á brott frá Saran áður en færi að skyggja og reyndu starfsmennirnir að meta meiðslin eins hratt og mögulegt var. Lítil stúlka, Shirin að nafni, tveggja ára gömul, kom með mömmu sinni. Shirin hafði fótbrotnað og greinilegt var að hún var mjög kvalin. Hún var einnig hrædd við öll þessi nýju andlit en móðir hennar reyndi að hugga hana. En eftir 30 mínútur var fóturinn settur í gifs og í fyrsta sinn kom bros á andlit hennar.

Það er ekki allt glatað ennþá.