Fórnarlömbum fjölgar á degi hverjum

22. okt. 2005

REUTERS/ Desmond Boylan
REF: SRI01D

Enn fjölgar fórnarlömbum jarðskjálftanna í Pakistan, og talið er að jafnvel þúsundir manna láti lífið á degi hverjum vegna kulda og vosbúðar þar sem ástandið er verst.

Gríðarlegur fjöldi fólks þarf á hlýjum tjöldum að halda sem allra fyrst til að geta lifað hamfarirnar af. Þörf er á auknum fjárframlögum til hjálparstarfsins til að unnt sé að hlúa að þeim sem misst hafa heimili sín og framfæri.

Jarðskjálftinn átti sér upptök í fjallahéruðum norður af bænum Muzaffarabad í Kasmír. Sumar byggðir á þessum slóðum eru í 2-4000 metra hæð yfir sjávarmáli og veðurfar því ómilt. Vegir eru slæmir og hafa víða eyðilagst vegna skriðufalla þannig að bifreiðar komast þangað ekki með hjálpargögn. Vetur er að ganga í garð og margir þeirra vega sem nú eru nothæfir gætu orðið ófærir vegna snjóa innan fárra vikna.

Talið er að um það bil 3,3 miljónir manna hafi misst heimili sín og 80,000 manns látist í öflugum jarðskjálfta er reið yfir Kasmír hérað og norðurhluta Pakistans þann 8. október.