Rauði krossinn veitir 20 milljónum króna úr neyðarsjóði til Pakistans

Konráð Kristjánsson

21. okt. 2005

Stjórn Rauða kross Íslands ákvað í dag að veita 20 milljónum króna úr neyðarsjóði félagsins til hjálparstarfsins eftir jarðskjálftana í Pakistan. Nú stefnir í að manntjón af kulda og vosbúð verði engu minna en í sjálfum skjálftanum 8. október.

Hundruð þúsunda manna ? karlar, konur og börn - hafa ekkert skjól og vetur er genginn í garð. Eftir því sem á líður verður næturkuldinn meiri í fjallahéruðum á skjálftasvæðunum í Kasmír.

?Fyrir 20 milljónir króna er hægt að kaupa hlý vetrartjöld fyrir næstum fimm þúsund manns,? segir Sigrún Árnadóttir framkvæmdastjóri. ?Rauði krossinn skorar á fjölskyldur að hringja í söfnunarsímann 907 2020 og gefa þannig eitt þúsund krónur.?

Þegar hafa safnast um 15 milljónir króna frá ríkisstjórn og almenningi. Takmark Rauða kross Íslands er að veita 50 milljónum króna til hjálparstarfsins í Pakistan. Nú vantar 15 milljónir króna upp á að það takmark náist.

?Fyrir þá upphæð er hægt að kaupa vetrartjöld fyrir nærri tólf þúsund manns. Allt sem bætist við það sem þegar er komið nýtist í hjálparstarfið í Pakistan. Hvert tjald sem er hægt að koma til fjölskyldu á skjálftasvæðunum ver þá fjölskyldu fyrir vetrarkuldum,? segir Sigrún.

Þeir sem vilja gefa geta hringt í 907 2020 og þá færast 1.000 krónur af símreikningi. Einnig er hægt að gefa hærri upphæð með því að fara inn á www.redcross.is og veita framlag af greiðslukorti.