Þjáningar í Shamlai

Yrsu Grüne

21. okt. 2005

Það er ekki mikið eftir af fjallaþorpinu Shamlai nálægt bænum Batagram í Pakistan. 172 af íbúum þess létu lífið í jarðskjálftanum og 6000 manns slösuðust. Enn er verið að finna lík í rústunum. Íbúarnir hafa hvorki rafmagn né síma lengur og vegurinn er illfær vegna skriðufalla.

Shamlai er eitt af þeim þorpum þar sem Alþjóða Rauði krossinn veitir neyðaraðstoð, en samgönguerfiðleikar eru mjög miklir og hamla starfinu. Nýbúið er að opna veginn, en miklar rigningar sjá til þess að hann er ennþá illfær. Stór hluti hamfarasvæðisins er enn algerlega óaðgengilegur nema menn fari gangandi eða ríðandi.

Slösuðum hefur verið komið fyrir í bráðabirgðasjúkrahúsi í þeim fáu byggingum sem enn eru uppistandandi í þorpinu og sjálfboðaliðar frá öðrum hlutum Pakistans veita þeim þá aðhlynningu sem þeir geta við þessar erfiðu aðstæður. Engir möguleikar eru á að flytja sjúklinga á sjúkrahúsið í Batagram, því að það jafnaðist nær algerlega við jörðu.

Alþjóðasamband Rauða krossins vinnur nú að ítarlegu mati á þörfum fólksins á svæðinu kringum Batagram og vonast er til að nægileg fjárframlög fáist til að lina megi þjáningar almennings í Shamlai og öðrum eyðilögðum þorpum.